Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Íbúðarhús ungra hjóna á Dalvík rifið vegna myglu

10.05.2021 - 22:39
Mynd: RÚV / Ágúst Ólafsson
Íbúðarhús var rifið á Dalvík í gær. Mygla greindist í húsinu fljótlega eftir að ung hjón keyptu það fyrir rúmu ári. Þau fluttu aldrei inn og standa uppi nánast bótalaus.

Súsanna Svansdóttir og Stefán Grímur Rafnsson fluttu til Dalvíkur frá Vopnafirði í janúar 2020. Þar keyptu þau fljótlega einbýlishúsið við Sunnubraut 1. Húsið var byggt árið 1974 en búið var að endurnýja pappa og járn á þaki og einangra og klæða útveggi.

Við nánari skoðun kom í ljós mygla á leyndum stöðum í húsinu

Full tilhlökkunar réðust þau í endurbætur innanhúss til að gera húsið að sínu. „Áður en við förum að bæta nýju inn í húsið, þá vill smiðurinn sem kemur að aðstoða okkur kanna þakið. Þá kemur í ljós semsagt að það er myglað,“ segir Stefán. Við frekari skoðun kom sífellt í ljós meiri og meiri mygla á leyndum stöðum bak við einangrun og klæðningar í lofti og veggjum. Að lokum hafi þau þurft að meta hvar ætti að stoppa og þetta hafi endað með því að húsið var rifið.

 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Fjölskyldan ætlar að byggja nýtt hús á grunninum

Vita ekki nákvæmlega hver fjárhagsstaðan verður

Eftir rúmlega árs ferli og marga fundi með fasteignasölu, seljendum, lögfræðingum og fleirum, eru þau litlu bættari. „Við vitum svo sem ekkert alveg nákvæmlega hver niðurstaðan verður í þessu, en við verðum allavega skuldsettari en við ætluðum að vera þegar við flyttum inn í þetta. Eða ætluðum að flytja inn í þetta,“ segir hann.

„Maður stendur eiginlega bara einn og fær hvergi svör“

Í níu mánuði bjuggu þau hjá foreldrum Súsönnu og á endanum keyptu foreldrar Stefáns íbúð þar sem þau búa nú. Þau segja ómetanlega þá hjálp sem þau hafi fengið frá fjölskyldu og vinum. „Það er ekki til neitt kerfi sem tekur um mann. Maður stendur eiginlega bara einn og fær hvergi svör og maður verður eiginlega að gera allt sjálfur,“ segir Súsanna.

Ömurlegt að þurfa að rífa hús sem átti að verða framtíðarheimilið

Og það sé nauðsynlegt að breyta lögum þannig að einstaklingar eins og þau þurfi ekki sjálfir að standa í þvílíku stappi. „Að bæði við og þau sem áttu húsið og fasteignasalinn, að það þurfi allir að taka ábyrgð. Ekki að öll ábyrgðin liggi á okkur.“ Bæði segja þau það ákveðinn létti að húsið skuli nú horfið af grunninum og ákveðinni óvissu eytt - en sorglegt um leið. „Það er náttúrulega ömurlegt að vera búin að vera að standa í þessu öllu saman. Þetta átti að vera framtíðarheimili manns en er orðið svona. Og búið að taka alveg ótrúlega langan tíma líka - allt of langan tíma.“

Þau ætla að byggja nýtt timburhús á grunninum og vonast til að framkvæmdir við það hefjist um mitt sumar.