Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Veðurstöðvar eru ekki endilega þar sem veðrið er best

09.05.2021 - 12:37
Mynd: Jóhannes Jónsson / RÚV/Landinn
Veðurstöðvar safna upplýsingum um hita, raka, vind, loftþrýsting, úrkomu og fleira sem er miðlað á síðum eins og vedur.is - en það er ekki víst ekki eini tilgangurinn.

„Við erum að safna gögnum sem fara í spálíkön. Við þurfum líka að fylgjast með líkönunum hvort þau séu að spá rétt fyrir. Við erum líka að vara við náttúruvá. Við þurfum líka fylgjast með viðvörunum hvort þær ganga eftir. Það er ansi víðtækur tilgangur með öllum þessum mælingum,“ segir Árni Sigurðsson, sem hefur starfað sem veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands en sinnir nú veðurstöðvum.

Stöðvarnar ekki þar sem veðrið er best

Stöðvarnar eru ekkert endilega þar sem veðrið er best. „Við viljum ekki að það sé neitt sem truflar, eins og byggingar og annað. Þess vegna er yfirleitt ekki heppilegt að hafa þetta inni í þorpum, við horfum til mjög langs tíma því að við erum líka að safna gögnum fyrir framtíðina, fyrir komandi kynslóðir. Við lifum á tímum veðurfarsbreytinga og við söfnum ekki gögnum eftir á.“ 

„Alþjóða veðurfræðistofnunin setur upp gæðastaðla og gæðaflokkun og þær gætu fallið um flokk ef það er mjög stutt í byggingu eða annað.“
 

„Við flöggum ekki gögnum frá Húsavík“

Þótt blíðviðri á Húsavík gæti trekkt fólk að er veðurstöðin þar ekki mjög hátt skrifuð hjá Veðurstofunni. „Veðurstöðin var sett inn í dalverpi, og síðan var plantað öspum – og það er ekki mikið gagn af slíkum veðurathugunum. – Við flöggum ekki mikið þeim gögnum sem koma frá þeirri stöð,“ segir Árni. Þá var veðurstöðin á Kirkjubæjarklaustri færð þegar sjálfvirk veðurstöð var sett þar upp. „Hún hafði verið lengi inni í þorpinu sjálfu þar sem var trjágróður en síðan þegar það var sett upp sjálfvirk stöð og henni var valin ný staðsetning þá var henni fundinn staður á Stjórnarsandi – alveg við flugvallarendann, opið svæði og hágæðaveðurgögn. - En þorpsbúar voru ekki alveg ánægðir með þetta vegna þess að það hafði stundum áhrif á hámarkshita á landinu suma daga.“
 
„Það getur vel verið óhentugt fyrir eitthvert bæjarfélag ef veðurstöð er staðsett þannig að hún endurspeglar ekki veðrið inní bænum sjálfum - en við veltum því voða lítið fyrir okkur, en það getur vel verið að við þurfum að taka meira tillit til þess,“ segir Árni. – „Við horfum á þetta í mjög víðri mynd, veðri og náttúruvá, og veðurfarsbreytingum svo við þurfum á hágæðagögnum að halda.“

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður