Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Uggur og fögnuður við afléttingu hamla á Spáni

09.05.2021 - 12:35
Mynd: EPA-EFE / EFE
Öllum ferðahömlum hefur verið aflétt á Spáni, eftir að viðbúnaðarstigi, sem verið hefur í gildi í meira en hálft ár, var aflétt á miðnætti. Sérfræðingar óttast nýja bylgju kórónusmita, ef almenningur taki nýfengnu frelsi af léttúð.

Fögnuður, efasemdir og eirðarleysi. Þetta eru orðin þrjú sem spænska dagblaðið El País notaði í morgun til þess að lýsa tilfinningum spænsku þjóðarinnar þessa stundina.

Á miðnætti í nótt féll úr gildi viðbúnaðarástand sem verið hefur í gildi á Spáni í rúma 6 mánuði, eða allt frá 26. október. Síðan þá hefur íbúum landsins verið meinað að ferðast á milli héraða landsins, útgöngubann hefur verið í gildi á næturnar og miklar samkomutakmarkanir.

Fyrir rúmum mánuði tilkynnti forsætisráðherra landsins, Pedro Sánchez, að þessu viðbúnaðarstigi yrði aflétt þann 9. maí. Þá fylgdi reyndar sögunni að hann reiknaði þá með að smit á Spáni yrðu komin niður í 25 á hverja 100.000. Það er alls ekki raunin, þau eru nú um 200 á hverja 100.000 íbúa.
Þessi aflétting viðbúnaðarstigs hefur í för með sér að öllum ferðahömlum, útgöngubanni og samkomutakmörkunum er aflétt í einu vetfangi. Nú verða stjórnvöld í hverju héraði að leita til dómstóla til að viðhalda þessum takmörkunum sem taldar eru vega að grundvallarmannréttindum og það er ekki auðsótt mál. Enn sem komið er hafa einungis fjögur sjálfsstjórnarhéruð fengið heimild til áframhaldandi útgöngubanns á nóttunni og hvergi eru nú ferðatakmarkanir.

Elena Martínez, formaður Samtaka faraldsfræðinga á Spáni, segir í samtali við El País í dag að enn séu smitin of mörg á landsvísu. Aflétting viðbúnaðarstigs veiti almenningi hugsanlega falskt öryggi, sem og fréttir af því að bólusetningar gangi vel, en nú hafa tæp 30% þjóðarinnar fengið eina eða tvær sprautur af bóluefni. Martínez segir að þrátt fyrir allt þá sé hættan á smitum og nýrri bylgju enn fyrir hendi, og að nú ríði á að almenningur sýni ábyrgð með gjörðum sínum.

Á sama tíma og vart verður mikilla efasemda hjá sérfræðingum, þá einkenna fögnuður og eirðarleysi stóran hluta almennings. Þegar í nótt var mikill mannfjöldi á götum stærstu borga Spánar, og stemningin var eins og þegar fólk fagnar nýfengnu frelsi. Þar við bætist að mikill hiti hefur verið um mestallan Spán um helgina og strendur landsins hafa verið kjaftfullar af fólki að sleikja sólina. Þá er viðbúið að mikil umferð verði um hraðbrautir Spánar á næstu sólarhringum, því margir þrá orðið að vitja ættingja og vina sem þeir hafa ekki séð mánuðum saman.

epa09186702 Hundreds of people celebrate in the Passeig Lluis Companys of Barcelona, Spain, 08 May 2021. The state of alarm that was imposed six month ago due to the pandemic expires on 09 May 2021.  EPA-EFE/Quique Garcia
 Mynd: EPA-EFE - EFE