Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Óljóst hvort Daði kemst inn í Gagnamagnsbílinn

Gagnamagnsbílar Daða og Gagnamagnsins fyrir utan Ahoy höllina í Rotterdam.
 Mynd: Djoeke Westdijk

Óljóst hvort Daði kemst inn í Gagnamagnsbílinn

09.05.2021 - 15:09

Höfundar

Tveir sérmerktir Daða- og Gagnamagnsbílar standa nú beint fyrir utan Ahoy höllina í Rotterdam þar sem Eurovision söngvakeppnin fer fram. Bílunum var lagt fyrir utan fyrr í dag og hafa vakið mikla lukku vegfarenda en á þeim eru tölvugerð andlit Daða og Gagnamagnsmeðlima.

Um er að ræða litla rafmagnsbíla með tveimur sætum, fyrir bílstjóra og einn farþega. Meðlimum Gagnamagnsins er ekki heimilt að keyra þá samkvæmt sóttvarnarreglum sem nú eru í gildi í Hollandi og því munum við líklega aldrei komast að því hvort Daði Freyr, sem er 208 sentimetrar á hæð, komist hreinlega inn í bílinn.

Fyrsta æfing Daða og Gagnamagnsins á sviðinu í Ahoy höllinni fer fram síðdegis á morgun, mánudag. Æfingatími á stóra sviðinu er af mjög skornum skammti og því er hver mínúta á sviðinu dýrmæt.

Ahoy-höllin er í miðri Rotterdam og hýsir árlega margvíslega íþrótta- og listviðburði. Venjulega tekur höllin yfir 16 þúsund manns en eins og fram hefur komið verða eingöngu leyfðir 3.500 áhorfendur í söngvakeppninni í ár.

Daði og Gagnamagnið stíga á svið í seinni undanúrslitum Eurovision í ár sem fara fram fimmtudaginn 20. maí. Úrslitin eru svo laugardaginn 22. maí.

Mynd með færslu
Daði er síður en svo smár maður svo það er óvíst hvort hann kæmist í bílinn þó sóttvarnarreglur leyfðu

Tengdar fréttir

Menningarefni

„Það er rosa hressleiki, kannski smá galsi“

Tónlist

Daði og Gagnamagnið halda til Rotterdam

Kvikmyndir

Jaja ding dong-gaurinn verður stigakynnir í Eurovision