Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Kvikustrókavirknin hófst á ný í gærkvöld

09.05.2021 - 13:47
Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Kvikustrókavirkni hófst á ný í eldgosinu við Fagradalsfjall í gærkvöld. Eftir að hafa staðið yfir í viku stöðvaðist kvikustrókavirknin skyndilega í gærmorgun og Salóme Jórunn Bernharðsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að sérfræðingar hafi ekki endilega talið að hún hæfist á ný.

„Virknin breyttist í gærmorgun og það hætti þessi kvikustrókavirkni, þessi reglufasta virkni sem var búin að vera í um það bil viku, og verður svona eins og hún var áður, svona bara jöfn gosvirkni. Svo í gærkvöldi milli sjö og átta þá fer þetta aftur í þennan fasa að vera reglubundin kvikustrókavirkni. Hún var hæg af stað en algjörlega búin að ná upp hraðanum aftur,“ segir hún. 

Salóme segir virknina lítið segja til um framhaldið: „Það er voða erfitt að segja til um það hvort þetta gefi vísbendingu um eitt eða annað, það er ekkert hægt að lesa í það endilega.“