Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Jafntefli í Krikanum - Stjarnan lá í Keflavík

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Jafntefli í Krikanum - Stjarnan lá í Keflavík

09.05.2021 - 21:08
Annarri umferð úrvalsdeildar karla í fótbolta lauk í kvöld með tveimur leikjum. Stórleikur var í Kaplakrika þar sem FH tók á móti Val og í Keflavík mættu nýliðarnir Stjörnunni sem spilaði í fyrsta sinn án Rúnars Páls Sigmundssonar í brúnni sem tók við liðinu 2014 en hætti í vikunni.

 

FH og Valur unnu bæði leiki sína í fyrstu umferð 2-0. FH hafði betur gegn Fylki og Valur vann ÍA. Á 22. mínútu sauð upp úr þegar Valsarinn Haukur Páll Sigurðsson sparkaði Jónatan Inga Jónsson harkalega niður. Jónatan hafði komið í veg fyrir að Haukur gæti tekið aukaspyrnu hratt. Haukur Páll fékk rautt spjald og var rekinn af velli og Jónatan fékk að líta gult.  

Fyrsta mark leiksins kom á 38. mínútu þegar Hörður Ingi Gunnarsson lét vaða fyrir utan teig. Boltinn fór í bakið á Ágústi Eðvaldi Hlynssyni og inn. Staðan orðin 1-0 fyrir FH sem höfðu verið líklegri til að skora fram til þessa.  

Á 70. mínútu kom jöfnunarmark frá Val sem Sigurður Egill Lárusson skoraði. Þar við sat og liðin þurfa að sætta sig við eitt stig hvort í kvöld.  

Erfið byrjun hjá Stjörnunni

Keflavík tapaði 1-0 fyrir Víkingi í fyrstu umferð og Stjarnan gerði markalaust jafntefli við hina nýliðana, Leikni, 0-0. Keflvíkingar fengu dæmda vítaspyrnu á 20. mínútu sem Frans Elvarsson þurfti að vísu að taka tvisvar en hann skoraði í bæði skiptin og Keflvíkingar komnir yfir.

Á 53. mínútu bætti Kian Williams í fyrir Keflavík og mótið að byrja brösuglega hjá Garðbæingum.  Meira var ekki skorað í leiknum og 2-0 sigur nýliðanna staðreynd.