Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Heimilisofbeldi, ölvun og útköll vegna hávaða

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Eggert Þór Jónsson - RÚV
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í mörg horn að líta í gærkvöld og í nótt. Lögreglumenn á svæði stöðvar þrjú, sem sér um Kópavog og Breiðholt, voru tvisvar kallaðir út vegna heimilisofbeldis. Fyrra útkallið kom um klukkan hálf átta í gærkvöld. Þá barst tilkynning um yfirstandandi heimiliserjur, mikil öskur og læti. Um miðnætti var svo óskað eftir aðstoð lögreglu vegna manns sem hótaði að ganga í skrokk á konu.

Talsvert var um ölvun og útköll vegna hávaða. Tveir menn voru handteknir eftir að hafa brotist vopnaðir inn í húsnæði á Grensásvegi upp úr klukkan níu í gærkvöld. Einn var handtekinn fyrir fíkniefnasölu í miðbæ Reykjavíkur skömmu fyrir miðnætti. Klukkutíma síðar óskuðu sjúkraflutningamenn eftir aðstoð lögreglu vegna sjúklings sem veittist að þeim. Ró var þó komin á þegar lögreglumenn komu á staðinn.

Um kvöldmatarleytið fékk lögreglan tilkynningu um skrýtin hljóð sem komu frá íbúð í Hafnarfirði. Tilkynnanda þótti sem hann heyrði barn öskra. Svo reyndist ekki vera, hljóðin komu frá fugli.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV