Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Chelsea aftur meistari

Mynd með færslu
 Mynd: Getty - RÚV

Chelsea aftur meistari

09.05.2021 - 16:12
Kvennalið Chelsea varð í dag enskur meistari í fótbolta annað árið í röð. Liðið vann stórsigur á Reading 5-0 í lokaumferð mótsins. Þetta er í fjórða sinn á sex árum sem Chelsea verður Englandsmeistari.

Chelsea var með tveggja stiga forskot á Manchester City fyrir leiki dagsins. Melanie Leupolz kom Chelsea yfir strax á annarri mínútu og Fran Kirby bætti við marki fyrir leikhlé. Kirby var aftur á ferðinni á 57. mínútu, Sam Kerr skoraði fjórða markið á þeirri 71. og Erin Cuthbert kláraði málið með fimmta markinu á 75. mínútu. 

City vann nauman útisigur á West Ham 1-0. Ellen White skoraði sigurmarkið á 75. mínútu. Landsliðskonan Dagný Brynjarsdóttir lék allan leikinn fyrir West Ham sem hafnar í níunda sæti deildarinnar af tólf. 

Kvennalið Chelsea er á leið í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu eins og karlaliðið og mætir þar Barcelona næsta sunnudag.