Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Brak kínverskrar geimflaugar hrapaði í Indlandshaf

09.05.2021 - 03:53
Mynd með færslu
 Mynd: CCTV
Brak kínverskrar geimflaugar sem hrapaði stjórnlaust til jarðar féll ofan í Indlandshaf. Fréttastofa kínverska ríkissjónvarpsins greindi frá þessu í nótt. Stærstur hluti flaugarinnar eyðilagðist á leið sinni inn í lofthjúp jarðar. 

Nánast ómögulegt var að spá því hvar brakið myndi lenda, og voru einhverjar líkur á því að það myndi falla í byggð. Mestar líkur voru þó alltaf á því að flaugin myndi falla á óbyggt landsvæði eða í hafið. Í yfirlýsingu kínversu geimvísindastofnunarinnar segir að brakið hafi komið inn í lofthjúp jarðar á þriðja tímanum í nótt að íslenskum tíma. Eftirlitsþjónustan Space-Track, sem notar gögn frá Bandaríkjaher, staðfesti einnig í nótt að geimflaugin hafi hrapað til jarðar.

Í fyrra féll brak úr annarri kínverskri geimflaug til jarðar í byggð á Fílabeinsströndinni. Tjón varð á mannvirkjum en engan sakaði.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV