Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Borgaði 170 milljónir fyrir treyju Jordans

09.05.2021 - 13:48
epa08457583 (FILE) - Former NBA star Michael Jordan receives the Presidential Medal of Freedom during a ceremony in the White House in Washington, DC, USA, 22 November 2016 (re-issued on 01 June 2020). Michael Jordan condemned 'ingrained racism' in the United States in a statement on the death of George Floyd released on 31 May 2020.  EPA-EFE/SHAWN THEW
 Mynd: Shawn Thew - EPA
Treyja sem körfuboltagoðsögnin Michael Jordan klæddist í leik með liði North Carolina háskólans veturinn 1982 til 1983 seldist í gær fyrir metfé. Hæsta boðið í treyjuna hljóðaði upp á 1,38 milljónir dollara, andvirði rúmra 170 milljóna króna. Það er þrefalt hærri upphæð en hefur áður verið greidd fyrir treyju sem Jordan klæddist.

Söfnunargripir sem tengjast íþróttastjörnum hafa löngum verið verðmætir í Bandaríkjunum og síðustu ár hefur hvert metið á fætur öðru verið slegið. Í fyrra seldist treyja sem Jordan klæddist í leik með Chicago Bulls fyrir tæpa hálfa milljón dollara. Air Jordan 1 High skór sem Jordan notaði í leik seldust í fyrra fyrir 615 þúsund dollara, andvirði 76 milljóna króna að núvirði. Þeim fylgdu þó reyndar glerbrot úr körfu sem splúndraðist þegar Jordan tróð boltanum, íklæddur skónum sem þóttu svo verðmætir. 

Mikill vöxtur hefur verið í viðskiptum með alls kyns minjagripi tengda íþróttum síðustu misseri, ekki síst eftir að COVID-19 skall á heimsbyggðinni. Gömul myndaspjöld með leikmönnum hafa hækkað í verði og treyjur, skór og aðrir gripir skipta um eigendur fyrir fúlgur fjár.

Mynd með færslu
Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV