Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Baldvin Þór svæðismeistari

Mynd með færslu
 Mynd: FRÍ - RÚV

Baldvin Þór svæðismeistari

09.05.2021 - 09:31
Evrópska vetrarkastmótið stendur yfir um helgina í Split í Króatíu. Fjórir íslenskir keppendur taka þátt, þrír kepptu í gær en náðu ekki að blanda sér í toppbaráttuna eða bæta árangur sinn. Guðni Valur Guðnason, Íslandsmethafi í kringlukasti, keppir í dag. Baldvin Þór Magnússon keppti í gær fyrir skólann sinn á móti í Bandaríkjunum.

Elísa­bet Rut Rún­ars­dótt­ir hafnaði í átt­unda sæti í Split í jafnri keppni í sleggjukasti í flokki undir 23 ára. Hún kastaði 61,31 metra en Cecilia Desi­deri frá Ítal­íu sigraði með kasti upp á 63,99 metra. Íslands­met Elísa­bet­ar í grein­inni er 64,39 metr­ar.

Hilm­ar Örn Jóns­son hafnaði í sextánda sæti í sleggjukasti karla og kastaði 68,62 metra en Íslands­met hans er 77,10 metr­ar. Sig­ur­veg­ar­inn Es­ref Apak frá Tyrklandi kastaði 75,99 metra.

Loks hafnaði Mím­ir Sig­urðsson í ní­unda sæti í kringlukasti í flokki undir 23 ára. Hann kastaði 54,23 metra en besti ár­ang­ur hans er 55,54 metr­ar. Yauheni Bahutski frá Hvíta-Rússlandi sigraði með kasti upp á 64,37 metra.

Þá varð Baldvin Þór Magnússon í gærkvöldi svæðismeistari MAC (Mid-American Conference) í 5000 metra hlaupi í Oxford, Ohio í Bandaríkjunum. Hann kom í mark á tímanum 14:09,50 sem er tæpum 24 sekúndum frá Íslandsmeti hans. 

Baldvin hóf leik með 1500 metra hluapi þar sem hann hafnaði í fjórða sæti á 3:44,95 sekúndum. Hann skilaði samtals fjórtán stigum fyrir Eastern Michigan-háskólann og hafnaði karlalið skólans í þriðja sæti á mótinu.