Ungmenni stíga á svið í Söngkeppni Samfés á Akranesi

Mynd með færslu
 Mynd: Samfés

Ungmenni stíga á svið í Söngkeppni Samfés á Akranesi

08.05.2021 - 14:30

Höfundar

Unglingar af öllu landinu munu stíga á svið í Söngkeppni Samfés sem fer fram sunnudaginn 9. maí í Bíóhöllinni á Akranesi. Keppnin verður sýnd í beinni útsendingu á RÚV og hefst klukkan 15.

Í söngkeppni Samfés keppa unglingar af öllu landinu sem fulltrúar félagsmiðstöðva sinna. Fram hafa farið forkeppnir og landshlutakeppnir og nú hafa 30 atriði verið valin til að keppa í úrslitum. Söngkeppni Samfés er einn af viðburðum SamFestingsins en haldinn er í mars á hverju ári en þar safnast venjulega saman um 4500 unglingar í Laugardalshöll. 

Eðli málsins samkvæmt munu 4500 ekki safnast saman í höllinni að þessu sinni en fulltrúar Samfés ákváðu engu að síður að halda Söngkeppnina til að gefa ungu fólki á öllu landinu tækifæri til þess að koma fram og syngja fyrir framan jafnaldra, og alla landsmenn, í beinni útsendingu. 

Eftir að öllum atriðum lýkur verður opnað á netkosningu á heimasíðu UngRÚV þar sem hægt verður að kjósa Rödd fólksins. Dómnefndina skipa svo þau Dagur Sigurðsson, Ragna Björg Ársælsdóttir og Rakel Pálsdóttir, sem sigraði einmitt Söngkeppni  Samfés árið 2004. 

Keppnin hefur verið mikilvægur hlutur af starfi Samfés allt frá árinu 1992 þegar hún var fyrst haldin. Þjóðþekktir Íslendingar hafa í gegnum tíðina tekið þátt í keppninni og sigrað, en meðal þeirra má nefna Ragnheiði Gröndal, Stefaníu Svavars og Laufeyju Lín. Sigurvegari síðustu keppni var Þórdís Linda Þórðardóttir sem tók þátt fyrir hönd félagsmiðstöðvarinnar Garðalunds. Ninja Sigmundsdóttir frá félagsmiðstöðinni Arnardal á Akranesi var kosin Rödd fólksins. 

Söngkeppni Samfés verður í beinni útsendingu á RÚV, sunnudaginn 9. maí klukkan 15.