Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sýningum frestað og íþróttaæfingar liggja niðri

default
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Um 160 íbúar í Skagafirði fóru í sýnatöku í dag og 76 eru komnir í sóttkví eftir að fjögur COVID-19 smit voru staðfest í sveitarfélaginu. Búið er að fresta leiksýningu og kvikmyndasýningu, slá af íþróttaæfingar og loka skíðasvæðinu, segir Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn og varaformaður byggðaráðs.

Að auki eru atvinnurekendur farnir að skoða það hvort þeir stöðvi starfsemi sína meðan unnið er að smitrakningu og komið í veg fyrir að smit breiðist víðar út. Jafnframt er til skoðunar hjá sveitarfélaginu að skólar verði lokaðir í byrjun næstu viku. Þetta verður þó ekki ákveðið fyrr en á morgun þegar ljóst er hver niðurstaðan úr sýnatökum dagsins er.

„Menn tóku strax til aðgerða í gærkvöld,“ segir Stefán Vagn um viðbrögð við smitunum sem greindust í gær. Mikil áhersla er lögð á að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu smits í sveitarfélaginu. Þau sem er staðfest að hafa smitast tengjast vinnustað og fjölskyldu. Stærstur hluti þeirra sem fór í sóttkví að fyrirmælum smitrakningarteymisins býr á Sauðárkróki, nokkrir búa þó í sveitunum innan sveitarfélagsins.