Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Milda dóma frekar í kynferðisbrotum en öðrum málum

08.05.2021 - 16:21
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Landsréttur hefur síðustu ár verið mun gjarnari á að milda dóma eða snúa sektardómi í sýknu í kynferðisbrotamálum en í ofbeldis- og fíkniefnamálum. Þessu er öfugt farið þegar kemur að því að þyngja dóma eða breyta sýknudómi í sakfellingu.

Þetta kemur fram í svörum dómsmálaráðherra við fjórum fyrirspurnum Andrésar Inga Jónssonar, þingmanns Pírata. Hann spurði hversu oft Landsréttur hefði staðfest dóma héraðsdóms í fjórum málaflokkum, hversu oft hann hefði snúið sekt í sýknu eða öfugt og hversu oft dómar hefðu verið mildaðir eða þyngdir. Málaflokkarnir eru kynferðisbrot, ofbeldisbrot, fíkniefnabrot og vændiskaup. Engin vændiskaup rötuðu í Landsrétt á síðustu þremur árum en á annað hundrað mál sem falla undir hina málaflokkana. 

Landsréttur mildaði dóma eða sneri sekt í sýknu í rúmlega 40 prósentum kynferðisbrotamála á síðustu þremur árum. Það er mun hærra hlutfall en í fíkniefna- og ofbeldismálum þar sem um 25 prósent dóma voru mildaðir eða sýknað í stað sakfellingar. Þetta sést líka þegar litið er til þess hversu oft sýknu var snúið í sakfellingu milli héraðsdóms og Landsréttar eða dómar þyngdir. Það gerðist í þriðja hverju fíkniefnamáli, sjötta hverju ofbeldismáli en áttunda hverju kynferðisbrotamáli.
 

 

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV

Landsréttur tók til starfa í ársbyrjun 2018. Þá hafði lengi verið stefnt að því að koma á fót nýju dómstigi, millidómstigi milli héraðsdómstóla og Hæstaréttar. Fyrsta árið mildaði Landsréttur eða sneri sakfellingu í sýknu í fimm kynferðisbrotamálum en þyngdi refsingu í þremur. Í fyrra mildaði dómstóllinn níu dóma og sýknaði í sex málum sem áður höfðu leitt til sakfellingar en þyngdi tvo dóma og sneri einum sýknudómi í sakfellingu. Landsréttur var tvöfalt líklegri til að milda refsingu en þyngja hana í ofbeldisbrotamáli 2018. Tveimur árum síðar leiddu jafnmörg mál til refsilækkunar og refsiþyngingar, tvö í hvora átt, en fjórum sakfellingum var breytt í sýknu. Það er aðeins í fíkniefnabrotamálum þar sem sýknu hefur oftar verið breytt í sakfellingu. Tveir sem voru sýknaðir í héraði voru sakfelldir í Landsrétti.

All nokkur umræða varð um dóma Landsréttar í kynferðisbrotamálum eftir úttekt Fréttablaðsins í byrjun janúar. Þar kom fram að dómstóllinn hefði mildað refsingu í sjö kynferðisbrotamálum í fyrra og breytt sekt í sýknu í sex af sautján málum sem úttektin náði til.

Samkvæmt svörum dómsmálaráðherra við fyrirspurn Andrésar Inga hefur Landsréttur breytt tíu sakfellingum héraðsdómstóla í nauðgunarmálum í sýknudóm en sakfellt í einu máli þar sem ákærði var upphaflega sýknaður. Áfrýjun sakfellingar í fimm ofbeldismálum leiddi til sýknudóms í Landsrétti en einum sýknudómi var snúið í sakfellingu.