Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Kolröng skilaboð frá Landsrétti

08.05.2021 - 17:52
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr - RÚV
Mun tíðari mildun kynferðisbrotadóma en annarra dóma í Landsrétti bendir til þess að bakslag hafi orðið í dómaframkvæmd í kynferðismálum, segir Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata. Landsréttur hefur mildað dóma eða sýknað sakfellda menn í um 40 prósentum kynferðisbrotamála sem hefur verið áfrýjað til dómstólsins. Andrés segir dómstólinn senda kolröng skilaboð inn í umræðuna um kynferðisbrot.

Samkvæmt svörum dómsmálaráðherra við fyrirspurnum Andrésar Inga er mun algengara að Landsréttur mildi dóma í kynferðisbrotamálum en ofbeldis- og fíkniefnamálum. Dómstóllinn er einnig líklegri til að breyta sakfellingu í héraðsdómi í sýknudóm á æðra dómstigi.

Andrés Ingi segir þetta ekki í takt við niðurstöður í öðrum málum sem koma fyrir Landsrétt. „Kynferðisbrotin eru fjórðungur af þeim málum. Þau eru hins vegar þriðjungur af þeim málum sem eru milduð og þau eru helmingur þeirra mála þar sem sakfelling í héraði breytist í sýknu við áfrýjun.“

Hann segir þetta til marks um að dómskerfið hafi ekki hlustað nógu vel á fólk sem berst fyrir réttindum þolenda í kynferðisbrotamálum. „Þetta er eitthvað sem þarf að skoða miklu betur og laga dómskerfið að þessu leyti.“ Þannig verði þolendur að fá skilaboð um að hlustað sé á þá. Þess í stað hafi áfrýjunarferlið bjagast í átt frá réttlætinu. 

„Mig langar að vona að þetta séu byrjunarörðugleikar og dómurinn fari að starfa betur á þessu sviði,“ segir Andrés. Hann segir að dómarar þurfi fræðslu, þar sem sönnunarfærsla í kynferðisbrotum sé öðruvísi en í mörgum öðrum málaflokkum. Dómarar Landsréttar sendi kolröng skilaboð inn í umræðuna um kynferðisbrot. „Þessar tölur benda til ákveðins bakslags í dómaframkvæmd og það á ekki að vera í boði á tímum þar sem við erum að bregðast við sögum og upplifun þolenda.“