Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

KA/Þór deildarmeistarar í fyrsta sinn í sögunni

Mynd með færslu
 Mynd: Edda Sif Pálsdóttir - RÚV

KA/Þór deildarmeistarar í fyrsta sinn í sögunni

08.05.2021 - 15:07
KA/Þór frá Akureyri er deildarmeistari í Olís deild kvenna í handbolta í fyrsta sinn. Liðið gerði jafntefli við Fram í hreinum úrslitaleik um deildarmeistaratitilinn en liðin voru jöfn að stigum fyrir leikinn.

Norðankonur unnu fyrri leik liðanna í deildinni og jafntefli dugði þeim því til sigurs í deildinni. Heimakonur í Fram tóku forystuna um miðjan fyrri hálfleik og voru með yfirhöndina allan fyrri hálfleikinn og leiddu með 5 stigum í leikhléi 17-12.

KA/Þór kom hins vegar vel til baka í seinni hálfleik og minnkuðu muninn jafnt og þétt. Þegar 15 mínútur lifðu leiks var staðan orðin 21-19 fyrir Fram, en KA/Þór tókst svo að jafna metin þegar tæpar tíu mínútur voru eftir 24-24.

Eftir það héldu Framkonur eins marks forystu þar til að Norðankonur jöfnuðu á lokamínútunni 27-27. Framarar höfðu þá tækifæri til að tryggja sér sigurinn en misstu boltann á ögurstundu og jafntefli því niðurstaðan. KA/Þór er þar með deildarmeistari í fyrsta skipti í sögu félagsins.

Markahæst í liði KA/Þórs var Rakel Sara Elvarsdóttir með 10 mörk og Rut Jónsdóttir gerði 8 mörk. Hjá Fram voru markahæstar þær Ragnheiður Júlíusdóttir og Karen Knútsdóttir með 9 mörk hvor.