Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Hvetja ríki til að sniðganga fund Sameinuðu þjóðanna

08.05.2021 - 02:13
epaselect epa08093820 Members of the Uighur community and sympathizers demonstrate on the Dam square in Amsterdam, The Netherlands, 29 December 2019. They are campaigning against what they see as the oppression of the Uighurs in China by the government of that country.  EPA-EFE/REMKO DE WAAL
 Mynd: EPA
Kínverjar hvetja aðildarríki Sameinuðu þjóðanna til að sniðganga fund sem ríki á borð við Þýskaland, Bandaríkin og Bretland hafa boðað til í næstu viku. Á fundinum verður fjallað um kúgun Kínverja á Úígúrum og öðrum minnihlutahópum í Xinjiang héraði.

Fréttastofa Reuters hefur þetta eftir bréfi sem fulltrúar Kínverja hjá Sameinuðu þjóðunum skrifuðu í fyrradag. Þar segir að viðburðurinn sé pólitískur og ríki hvött til þess að mæta ekki á þennan and-kínverska viðburð. Kínverjar segja ríkin sem skipuleggja viðburðin nota mannréttindamál sem pólitískt tól til að skipta sér af innanríkismálum Kínverja, skapa sundrung og óreiðu og trufla þróun Kína. „Þau eru heltekin yfir því að skapa ágreining við Kína," hefur Reuters eftir bréfinu, og segir auk þess að þessi ögrandi viðburður leiði aðeins til meiri ágreinings.

Fastafulltrúar Bandaríkjanna, Þýskalands og Bretlands ávarpa fjarfund á vegum Sameinuðu þjóðanna á miðvikudag. Þar verða auk þess stjórnendur Mannréttindavaktarinnar og alþjóðlegu mannréttindasamtakanna Amnesty International. Samkvæmt boðsmiða á viðburðinn verður rætt hvernig Sameinuðu þjóðirnar, aðildarríki þeirra og alþjóðasamfélagið geti stutt mannréttindi minnihlutahópa í Xinjiang.

Vesturveldin og mannréttindasamtök saka kínversk yfirvöld um að halda Úígúrum föngnum og pynta þá. Bandaríkin hafa lýst ástandinu sem þjóðarmorði. Bandaríkjastjórn bannaði í janúar innflutning á bómullarvörum og tómötum frá Xinjiang vegna ásakana um vinnuþrælkun. Kínversk stjórnvöld neita ásökunum og segja búðirnar þar sem Úígúrum er haldið vera endurmenntunarbúðir til þess að koma í veg fyrir öfgatrúarhreyfingar. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV