Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Heimsmet hjá mæðgunum í HK í dag?

Mynd með færslu
 Mynd: HK/Facebook - RÚV

Heimsmet hjá mæðgunum í HK í dag?

08.05.2021 - 18:00
Sá sögulegi atburður varð í dag að mæðgurnar Kristín Guðmundsdóttir og Embla Steindórsdóttir spiluðu saman í meistaraflokki í fyrsta sinn þegar liðið þeirra HK mætti Val. Leikurinn var mögulega sá síðasti hjá þeirri eldri.

Kristín er þaulreynd fyrrverandi landsliðskona en færri þekkja líklega til Emblu sem er 15 ára og hefur komið sterk inn í lið HK U í vetur. Hún var í fyrsta skipti í hóp hjá aðalliðinu í dag og kom inn á þegar skammt var til leiksloka. Hún fékk sendingu frá mömmu sinni, braust í gegn og fiskaði víti og Kristín viðurkennir að hafa fundið tárin leka niður þegar hún hljóp til baka í vörn. 

„Í hvert skipti sem ég hef skrifað undir nýjan samning hef ég hugsað: Ætli við náum þessu? En það var svo ekki fyrr en síðasta eina og hálfa árið sem ég fór að hugsa að þetta væri raunverulegur möguleiki því hún hefur farið hratt frá því að vera barn í að vera fullorðin, verið dugleg að æfa og tekið svakalegum framförum í covid,“ segir Kristín sem er fædd 1978 og verður 43 í júlí. 

27 ár skilja mæðgurnar að og Kristín veltir fyrir sér hvort það hljóti ekki að vera heimsmet. „Er ekki eitthvað upp úr þessu að hafa fyrir sektarsjóðinn með því að komast í Heimsmetabók Guinnes?“

Fjölskyldan hefur sterk tengsl við Val og því sérstaklega skemmtilegt að Valsarar hefðu verið mótherjinn í dag. 

„Ég hélt að þetta myndi ekki hafa svona mikil áhrif á mig,“ segir Kristín um atburði dagsins. Eins og staðan sé núna hafi fyrsti deildarleikur dótturinnar verið hennar síðasti.