Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Fagna breytingum á ávana- og fíkniefnalöggjöf

08.05.2021 - 23:12
Mynd með færslu
 Mynd: Iðnaðarhampur - Pálmi Einarsson
Samtök Iðnaðarins fagna þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpi um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni þar sem lagt er til að veitt sé heimild fyrir innflutningi á fræjum til ræktunar á iðnaðarhampi.

Réttara sé, eins og lagt er til, að ræktun iðnaðarhamps falli undir lög og eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru undir eftirliti Matvælastofnunar, en ekki undir lög um ávana- og fíkniefni undir eftirliti lyfjastofnunar. Þetta kemur fram í umsögn samtakanna sem send var í Samráðsgátt stjórnvalda. 

Lyfjafræðingafélag Íslands telur eðlilegt að Matvælastofnun hafi eftirlit með innflutningi á fræjum til ræktunar iðnaðarhamps. Þá hvetur félagið jafnframt til þess að áratuga gömul lög um ávana- og fíkniefni og reglugerð um ávana- og fíknilyf verði endurskoðuð í heild sinni.

Hampfélagið og Samtök smáframleiðenda matvæla taka undir þá skoðun Samtaka Iðnaðarins að undanþágan eigi ekki að einskorðast við það þegar fræin eru flutt inn í þeim eina tilgangi að rækta iðnaðarhamp. 

Aðeins ein umsögn er andvíg frumvarpinu. Aðalsteinn Gunnarsson frá IOGT segir að með leyfi framleiðslu kannabisjurtarinnar yfir höfuð auki líkur á að vímuefni sé framleitt. Umfjöllun um fíkniefni sé mjög villandi og þeir ganig harðast fram sem vilji lögleiða vímuefni.

Frumvarpið er á borði velferðarnefndar Alþingis og bíður þar breytingatillagna áður en það verður lagt fram til annarrar umræðu í þingsal.