Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Undirbúa bólusetningu fyrir alla Grímseyinga

07.05.2021 - 12:49
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Til stendur að fljúga til Grímseyjar og bólusetja alla íbúa þar í einu. Það er bæði tímafrekt og dýrt fyrir Grímseyinga að fara til Akureyrar í bólusetningu.

Í Morgunblaðinu er rætt við Grímseying sem gagnrýnir það að eyjarskeggjar þurfi að koma sér til Akureyrar á eigin kostnað ætli þeir í bólusetningu. Það þýði tveggja daga frí úr vinnu og mikinn ferðakostnað. Á bilinu 30-40 manns búa í Grímsey og um þriðjungur þeirra hefur þegar fengið sprautu.

Þarf heldur meiri viðbúnað í svona aðgerð

Jón Helgi Björnsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Norðurlands, segir vel koma til greina að fara til Grímseyjar og bólusetja þar. „Okkur fannst þetta nú bara góð ábending til okkar. Já, ég held að það komi vel til greina. Það þarf reyndar svolítið meiri viðbúnað upp á það ef eitthvað kemur upp á í bólusetningunni.“

Fyrst þurfi að klára ákveðna forgangshópa í landi

Þegar búið verði að bólusetja forgangshópa gefist svigrúm fyrir svona verkefni. Hann getur ekki sagt nákvæmlega hvenær farið yrði til Grímseyjar. „En það gæti bara orðið á næstu vikum held ég. Miðað við hvernig gangurinn er í bólusetningum þá finnst mér það líklegt.“

„Þannig að það er allavega ekki hægt að gera þetta alveg strax, eða hvað?“

„Nei, en þetta er í skoðun hjá okkur samt. Ég held að þetta snúi aðallega að forgangshópum. Menn eru að klára ákveðna hópa og það er svolítið erfitt að taka aðra fram fyrir, fyrr en núna kannski.“ 

Minnsta mál að bólusetja alla Grímseyinga í einu

Og það yrði hægt að bólusetja í einu alla Grímseyinga sem eigi eftir að fá sprautu. „Já, ég held að það væri hið minnsta mál að gera það. Það sé miklu einfaldara í framkvæmd heldur en að láta hvern og einn fljúga sérstaklega þegar röðin kemur að honum. Þannig að við finnum lausn á þessu.“