Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Setja tímamörk á fjölmiðlastyrki

Mynd með færslu
 Mynd:
Meirihluti allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis leggur til að frumvarp menntamálaráðherra um stuðning við einkarekna fjölmiðla verði tímabundið úrræði og falli úr gildi í lok þessa árs. Formaður nefndarinnar segir ekki sjálfgefið að ríkið aðstoði einkarekin fyrirtæki.

 

Með frumvarpinu er lagt til að komið verði á fót stuðningskerfi fyrir einkarekna fjölmiðla hér á landi. Menntamálaráðherra mælti fyrir frumvarpinu í nóvember. Málið fór til allsherjar-og menntamálanefnd í janúar og nefndin lauk umfjöllun sinni í gær.

Meirihluti nefndarinnar leggur til nokkrar breytingar. Prentmiðlar þurfa að koma út að minnsta kosti 20 sinnum á ári til að eiga rétt á stuðningi og aðrir miðlar bjóða upp á samfélags- og fréttaumfjöllun á virkum dögum minnst 20 vikur á ári. Þá þurfi fjölmiðilinn að hafa verið starfandi í 12 mánuði eða lengur með skráningu hjá fjölmiðlanefnd.

Meirihlutinn leggur líka til að þetta verði tímabundið úrræði og að lögin falli úr gildi í lok þessa árs. Páll Magnússon formaður nefndarinnar segir það ekki ganga upp til lengdar að einkareknir fjölmiðlar séu háðir fjárframlögum úr ríkissjóði. Styrkja þurfi rekstrargrundvöll þeirra með öðrum hætti og bendir hann meðal annars á þá vinnu sem er í gangi varðandi endurskoðun á skattlagningu erlendra efnis- og streymisveitna.

„Það er þá auðvelt og hægur vandi að framlengja þetta ef þarf. En aðgerðin sjálf þykir okkur vera þess eðlis að það eigi ekki að líta á hana sem varanlega. Það er ekki sjálfsagt að ríkið komi til beinnar aðstoðar við einkarekin fyrirtæki, alveg sama á hvaða markaði það er Og það hlýtur alltaf að vera miklum vafa undirorpið,“ segir Páll.

Málið hefur verið umdeilt innan þingflokks Sjálfstæðismanna en Páll telur að með þessum breytingum verði að hægt að afgreiða frumvarpið, jafnvel í næstu viku.

„En andstaðan innan Sjálfstæðisflokksins hefur fyrst og fremst verið þetta grundvallaratriði. Það þarf býsna mikið til að réttlæta það að ríkið komi með skattfé til aðstoða einkarekin fyrirtæki á markaði,“ segir Páll.

 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV