Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Rúmlega 170 þúsund skammtar í maí og júní

07.05.2021 - 16:30
Mynd: Arnar Páll Hauksson / Arnar Páll Hauksson
Frá því að byrjað var að bólusetja hér á landi gegn COVID-19 hafa verið fluttir inn um 185 þúsund skammtar af bóluefni. Þegar liggur fyrir áætlun um að hingað komi um 174 þúsund skammtar í maí og júní. Þeir gætu orðið fleiri því ekki eru staðfestar tölur um afhendingu bóluefna frá AstraZeneca og Janssen.

Áður en við fáum stunguna í handlegginn hafa starfsmenn fyrirtækisins Distica unnið hörðum höndum við að flytja bóluefnin til landsins og dreifa þeim. Þar stendur í stafni Júlía Rós Atladóttir framkvæmdastjóri. Hún segir að nú berist að minnsta kosti tvær sendingar í viku.

„Við erum að fá bóluefni frá þessum fjórum bóluefnaframleiðendum, Pfizer, Moderna, AstraZeneca og Janssen. Það er lang mest sem er að koma frá Pfizer. Þetta kemur bara með hefðbundnu áætlunarflugi til landsins. Það eru engar einkaflugvélar eins og var með fyrstu sendingarnar. Þannig að þetta rúllar bara eins og almennar lyfjasendingar til landsins eða eins og bóluefnasendingar almennt. Þannig að þetta er bara komið í hefðbundinn farveg hérna hjá okkur í Distica,“ segir Júlía Rós.

Mikið í húfi

Fyrirtækið flytur inn fjölmörg lyf en eru einhverjar sérstakar varúðarráðstafanir vegna covid bóluefnanna?
 
„Það er bara rosalega mikið í húfi. Þannig að við höfum vandað okkur mikið með hvern einasta skammt og það hefur ekkert farið til spillis, sem er frábært. Nú erum við búin að vera í þessu á fimmta mánuð. Það sem er kannski áskorun í þessum bóluefnum er náttúrlega þetta hitastig. Við höfum aldrei áður verið að flytja lyf eða bóluefni við mínus 70 gráður. Þannig að það var kannski helsta áskorunin en að öðru leyti er þetta eins og önnur bóluefni og lyf nema hitastigið og hve mikið er í húfi.“

Starfsfólk Distica tekur við bólefnasendingu

Náðu að kaupa frysti

Bóluefnið frá Moderna þarf líka að vera í talsvert miklum kulda. En hvað þurfti fyrirtækið að gera til að geta tekið á móti þessum bóluefnum. Er nóg að nota bara þurrís? Júlía Rós segir að það hafi verið skoðað fyrst. Það sé hægt að flytja efnin og geyma í þurrís.

„En það eru ekki mjög tryggar aðstæður. Þá þarf alltaf að vera að bæta við þurrís. Það felst mikil áhætta í því. Þannig að við fórum af stað og reyndum að finna frysti sem frystir í mínus 70. Það var nokkuð krefjandi vegna þess að öll heimsbyggðin var að leita að frystum sem kæla niður í 70 gráður. En við sem betur fer fengum frystinn tveimur dögum áður en fyrsta sendingin kom.“

Góður gangur

Nokkuð góður gangur hefur verið í bólusetningum upp á síðkastið. Júlía Rós segir að tugir sendinga með bóluefni hafi komið til landsins, tvær til fjórar á viku.185 þúsund skammtar hafi komið til landsins síðustu 4 mánuði og  maí og júni líti vel út.
 
„Já, sendingarnar eru að stækka. Við sjáum að við eru að setja met í bólusetningum viku eftir viku. Á næstu tveimur mánuðum eða það sem eftir er af maí og júní þá erum við að fá svipað magn og við fengum á fyrstu fjórum mánuðum ársins. Þannig að það er veruleg aukning.“