Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Kennsl borin á einn leiðangursmanna Franklins

07.05.2021 - 06:48
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - samsett mynd
Vísindamönnum hefur tekist að bera kennsl á líkamsleifar eins leiðangurssmanna úr Franklin-leiðangrinum svonefnda. Leiðangurinn endaði með ósköpum um miðja nítjándu öld, og er fátt vitað um afdrif leiðangursmanna. 

Franklin-leiðangurinn er kenndur við Bretann John Franklin, sem hugðist finna norðvestur siglingaleiðina á Norður-Íshafinu. Franklin hvarf sporlaust á leið sinni, ásamt tveimur skipum sínum og 130 manna áhöfn. Vera Illugadóttir gerir leiðangrinum skil í einum þætti Í ljósi sögunnar

Mynd: RÚV / samsett mynd

 

Líkamsleifarnar sem voru rannsakaðar fundust við King Williams eyju í Nunavut fylki í Kanada. Vísindamenn auglýstu eftir erfðaefnasýnum fólks sem taldi sig eiga ættir að rekja til áhafnar Franklin-leiðangursins. Jonathan Gregory í Port Elizabeth í Suður-Afríku frétti af auglýsingunni, og taldi sig tengjast John Gregory nokkrum. Rannsóknir sýndu svo ekki var um villst að suður-afríski maðurinn var barna-barna-barna-barnabarn Gregorys. Gregory segir niðurstöðuna ótrúlegar fréttir fyrir fjölskyldu hans, og alla þá sem hafa sýnt leiðangri Franklins áhuga. 

Auk líkamsleifa Gregorys hafa leifar 25 annarra úr áhöfninni fundist á níu fornleifaleitarsvæðum í norðanverðu Kanada. Fréttastofa BBC hefur eftir mannfræðingnum Anne Keenleyside að leifarnar hafi veitt þeim mikilvægar upplýsingar um afdrif leiðangursmanna, til að mynda aldur þeirra þegar þeir létust, ástand og heilsu.

 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV