Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Hyggjast klára forgangshópa í næstu viku

07.05.2021 - 11:53
Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Færri verða bólusett við COVID í næstu viku en þessari viku. Þá er þó stefnt að því að allt fólk í forgangshópum á höfuðborgarsvæðinu verði hið minnsta búið að fá fyrri sprautu bólusetningar.

Vikan sem nú er að líða er sú stærsta í bólusetningum frá upphafi. Um fjörutíu þúsund manns fá bólusetningu þessa dagana. Öllu færri verða bólusett í næstu viku, eða um tíu þúsund manns sem er þó með stærstu bólusetningarvikum til þessa. Það skýrist af því að einu bóluefnin sem þá verða í boði eru þau sem berast frá Pfizer.

Sigríður Dóra Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir að stór bólusetningardagur verði í Laugardalshöll á þriðjudag. „Þá erum við annars vegar að taka seinni bólusetningar þeirra sem eru þegar búin að fá bólusetningu og svo höldum við áfram niður forgangshópana. Þá eru það aðallega kvenmenn sem eru í forgangshópi og mega ekki fá AstraZeneca, konur undir 55 ára aldri.“

Þrátt fyrir að færri verði bólusett í næstu viku en þessari er útlit fyrir að þá verði áfanga náð í bólusetningu fólks í forgangshópum. „Vonandi náum við að klára þá alveg. Við erum búin að boða alla karlmenn, vonandi náum við að taka kvenmennina í næstu viku. Það væri óskandi.“ Náist það verður búið að veita öllum í forgangshópum á höfuðborgarsvæðinu fyrri sprautu bólusetningar og stór hluti þeirra verður fullbólusettur.

Á Norðurlandi eystra átti að klára bólusetningu fólks með undirliggjandi sjúkdóma í þessari viku og fara síðan í næstu forgangshópa. Víða á landinu er verið að vinna niður lista yfir fólk með undirliggjandi sjúkdóma.

Samkvæmt nýjustu uppfærðu tölum hafa um 140 þúsund verið bólusett og þar af 54 þúsund fullbólusett.