Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Deildarmeistararnir lögðu Val

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Deildarmeistararnir lögðu Val

07.05.2021 - 22:01
Keflavík fékk Val í heimsókn suður með sjó í kvöld. Keflvíkingar voru þegar búnir að tryggja sér deildarmeistaratitilinn en Valur var í baráttu um heimavallarréttinn í úrslitakeppninni.

Keflavík fór vel af stað í kvöld og eftir fyrsta leikhluta var staðan 31-22, Keflavík í vil. Staðan í hálfleik var svo 56-45. Valur gerði í raun aldrei almennilega atlögu að forystu Keflvíkinga í síðari hálfleiknum og þegar yfir lauk var munurinn 19 stig, 101-82. 

Dominykas Milka var öflugur hjá Keflavík í kvöld með 26 stig, sjö fráköst og þrjár stoðsendingar. Þá átti Hörður Axel Vilhjálmsson einnig góðan leik fyrir Keflavík. Hjá Val var Jordan Roland atkvæðamestur með 23 stig, tvö fráköst og tvær stoðsendingar. 

Spennan í Dominosdeildinni hefur líklega aldrei verið meiri. Þegar ein umferð er eftir er Keflavík öruggt með efsta sætið, Þór Þorlákshöfn er í 2. sætinu sem stendur með 28 stig, tveimur stigum ofar en Stjarnan sem er með 26 stig. KR, Grindavík og Valur koma þar á eftir öll með 22 stig. Tindastóll og Þór Akureyri eru með 18 stig en Njarðvík og ÍR, sem eru í 9. og 10. sæti, eru með 16 stig. Þá á Höttur sömuleiðis enn möguleika á að komast í úrslitakeppnina þrátt fyrir að vera í næst neðsta sætinu með 14 stig. Haukar eru fallnir úr deildinni og verma botnsætið.

Átta efstu lið deildarinnar fara í úrslitakeppnina og það mun því ekki skýrast fyrr en að síðasti leikur klárast í næstu umferð hvaða lið geta barist um Íslandsmeistaratitilinn. Allir leikir lokaumferðarinnar verða spilaðir á mánudagskvöld. 

Lokaumferð Dominosdeildar karla:
Þór Ak. - Haukar
Höttur - Keflavík
Valur - Grindavík
Tindastóll - Stjarnan
KR - ÍR
Njarðvík - Þór Þ.