Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Blaðamenn í verkfall eftir hótanir um starfsmissi

07.05.2021 - 21:34
Mynd með færslu
 Mynd: Jelle van Leest - Unsplash
Blaðamenn við bandaríska tímaritið Washingtonian lögðu niður störf í dag eftir að framkvæmdastjóri blaðsins sagði störf þeirra geta verið í hættu sneru þeir ekki aftur á ritstjórnina. Margir blaðamenn hafa unnið störf sín að heiman á tímum kórónuveirufaraldursins.

Framkvæmdastjórinn, Cathy Merrill, bar brigður á að blaðamennirnir væru raunverulega að störfum heiman frá sér. Þetta kom fram í grein hennar sem birtist í Washington Post, einu útbreiddasta dagblaði Bandaríkjanna.

Merrill baðst síðar afsökunar á orðum sínum, en ekki fyrr en eftir hávær mótmæli af hálfu blaðamannanna. Þeir ákváðu að gefa blaðið ekki út í andófsskyni.

„Séu starfsmennirnir sjaldan eða aldrei á ritstjórninni hvetur það stjórnina til að breyta ráðningarsamningi, jafnvel að bjóða þeim verktakalaun. Blaðamenn verða að skilja hvaða afleiðingar það hefur að mæta ekki á skrifstofuna,“ sagði í grein Merrill.

Ásamt afsökunarbeiðni sendi Merrill skilaboð þess efnis að engar breytingar yrðu á stöðu starfsfólksins, né hlunnindum þess. Hún kvaðst þó hafa áhyggjur af því að vinnustaðamenning hyrfi með heimavinnunni, þar sem mikilvægustu ákvarðanirnar væru oft teknar á óformlegum fundum á skrifstofunni.

Mörg stórfyrirtæki velta nú fyrir sér leiðum til að snúa að nýju til hefðbundinnar starfsemi eftir ríflega árs heimavinnu hjá fjölda starfsfólks. Oft virðist lendingin verða að boðið verði upp á blöndu heimavinnu og vinnu á vinnustaðnum sjálfum.