Aðgengilegra og auðveldara að dreifa ofbeldi á netinu

Mynd: Samfés / Samfés

Aðgengilegra og auðveldara að dreifa ofbeldi á netinu

07.05.2021 - 16:12

Höfundar

Unglingar gegn ofbeldi er samstarfsverkefni Stígamóta og Samfés sem hefur það að markmiði að unglingar taki þátt í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi og kynferðisofbeldi. Þátttakendur í verkefninu, sem ræddu við UngRÚV á dögunum, segja að orðið sé aðgengilegra og auðveldara að dreifa ofbeldi á netinu.

Unglingum á aldrinum 13-20 ára stendur til boða að taka þátt í verkefninu Unglingar gegn ofbeldi. Í gegnum verkefnið fá þau fræðslu um þau málefni sem þau telja að geti hjálpað þeim að berjast gegn ofbeldi. Þau móta svo sjálf sínar aðgerðir um hvernig þau geti frætt jafningja sína og fólk í sínu nærumhverfi um ofbeldi. 

Saga Maria Michaelsdóttir Erichsen, Rósa Guðbjörg Guðmundsdóttir og Aldís Lóa Benediktsdóttir eru meðal þeirra sem taka þátt í verkefninu í ár og þær ræddu við UngRÚV um breytingar á ofbeldi gegnum tíðina og markmiðið með  verkefninu. Viðtalið við þær má sjá í spilaranum hér fyrir ofan. 

Saga, Rósa og Aldís segja að ofbeldi í dag sé mun meira stafrænt en ungt fólk, og fullorðnir geri sér grein fyrir og það sé auðveldara en nokkru sinni fyrr að dreifa myndum og myndböndum.

„Það er bara því miður orðið miklu algengara og auðveldara að dreifa ofbeldi á netinu,“ segir Rósa. 

Stelpurnar segja að markmiðið sé að sem flestir viti af þeim og geti leitað til þeirra og að þær geti hjálpað fólki að skilja og átta sig á að það hafi verið beitt ofbeldi, af því að það séu ekki allir sem geri það. Ef þær geti hjálpað einhverjum að átta sig á því að viðkomandi eða einhver í kringum hann hafi orðið fyrir ofbeldi sé markmiðinu náð.  

Í ár heldur hópurinn úti Instagram-síðu með fróðleiksmolum, myndböndum og viðtölum í því skyni að fræða jafningja sína. Þá hafa þau sett upp TikTok-síðu til að vekja athygli á málstaðnum. Fræðslumyndband úr smiðju þeirra verður frumsýnt á UngRÚV og hópurinn kemur fram á söngkeppni Samfés sem haldin verður 9. maí og sýnd í beinni útsendingu á RÚV.

Unglingar gegn ofbeldi er hluti af stærra verkefni Stígamóta, Sjúkást, sem hefur það að markmiði að fræða ungmenni um mörk, samþykki og heilbrigð sambönd. Síðustu tvö ár hafa Stígamót og Samfés tekið höndum saman og staðið fyrir fræðslu um málefnið í félagsmiðstöðvum og ungmennahúsum um allt land. 

Myndband sem hópurinn hefur unnið í tengslum við verkefnið verður sýnt á Söngkeppni Samfés sem fer fram sunnudaginn 9. maí og verður í beinni útsendingu á RÚV frá klukkan 15.