Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Yfirstjórn SOS litið undan í barnaverndarmálum

06.05.2021 - 08:08
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Alþjóðasamtök SOS barnaþorpa hafa ekki rannsakað barnaverndarbrot til hlítar og jafnvel hætt rannsókn á slíkum málum án skýringa. Æðstu yfirmenn samtakanna hafa fyrirskipað að slíkum rannsóknum skuli hætt í vissum tilfellum. Ragnar Schram, framkvæmdastjóri SOS- barnaþorpa á Íslandi segir ekki hægt að taka þátt í slíkri yfirhylmingu.

Þetta kemur fram í viðtali við Ragnar í Morgunblaðinu í morgun. Svo virðist sem pottur sé víða brotinn innan alþjóðasamtakanna.  Hann segir að samtökunum hér á landi hafi meðal annars borist ábendingar frá Filipseyjum um að framkvæmdastjóra SOS þar í landi hafi verið rekinn á hæpnum forsendum.

Forsetinn fyrirskipaði að rannsókn skuli hætt

Hann hafi athugað málið og fengið öll gögn en ekki séð að tilefni væri til að víkja framkvæmdastjóranum frá störfum. 

„Ég grófst frekar fyrir um þetta hjá alþjóðasamtökunum, en kom hvarvetna að lokuðum dyrum hjá yfirstjórninni og fékk loks skilaboð um það að sjálfur Siddhartha Kaulm forseti alþjóðasamtakanna, hefði látið þau boð út ganga að þetta mál skyldi ekki rannsakað frekar,“ segir Ragnar í viðtalinu.  

Hann segir þetta ekki eina dæmið um óeðlileg afskipti og yfirhylmingu. Fyrrverandi starfsmenn samtakanna í hinum og þessum löndum hafi sett sig í samband við hann og fleiri forsvarsmenn samtakanna í öðrum löndum með ábendingar og upplýsingar um að þeim hafi ekki hvorki verið trúað né brugðist við aðfinnslum þeirra um brot gegn börnum.

Horfðu í hina áttina

Því var norsk lögmannsstofa fengin til að kanna hvort að fótur væri fyrir þessum ásökunum. Hún skilaði niðurstöðu í seinustu viku og svo reyndist vera. Brotalöm virðist vera á því hjá alþjóðasamtökunum hvað varðar barnaverndarmál og eftirfylgni þeirra, og að stjórnsýsla samtakanna sé ekki virk á því sviði að sögn Ragnars.

Hann segir vandan vera tvíþættan, annars vegar barnaverndarmálin sjálf og hins vegar að alþjóðasamtökin hafi ekki ræktað eftirlitshlutverk sitt og jafnvel litið undan. Það sé ekkert annað en yfirhylming. 

Brotin séu af ýmsum toga og séu misalvarleg. Gerendur séu bæði starfsmenn, önnur börn og fleiri. Rannsókn norsku lögfræðistofunnar hafi aðeins náð til þeirra mála sem kvartað var undan. Því sé ekki hægt að álykta um heildarfjölda brota innan barnaþorpa SOS. Í ársskýrslu samtakanna frá árinu 2019 hafi verið tilkynnt um 617 tilvik af ýmsum toga, þar af um 100 vegna líkamlegs og kynferðisofbeldis. Um 65 þúsund börn eru á framfæri samtakanna um allan heim. 

Vonar að fólk treysti samtökunum áfram

Ragnar segir þetta vera áfall fyrir samtökin hér á landi en það sé ekki hægt að taka þátt í yfirhylmingu sem þessari.

„Við getum ekki tekið þátt í yfirhylmingu og við viljum að okkar styrktaraðilar viti hvað er í gangi. Við viljum að þeir viti að við séum hreinskilin um þetta, að þeir geti treyst því að við lokum ekki augunum fyrir svona löguðu, af því að við erum í þessu til þess að hjálpa börnum í neyð,“ segir Ragnar.