Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Þolendur stíga fram – „Í þögguninni þrífst ofbeldi“

06.05.2021 - 18:28
Mynd með færslu
 Mynd: Pixabay
Fjölmargir þolendur hafa stigið fram á samfélagsmiðlum síðastliðinn sólarhring og opnað sig um kynferðisofbeldi, afleiðingar þess og viðbrögð samfélagsins. Umfangið minnir á #metoo byltinguna sem spratt upp fyrir nokkrum árum og beindist gegn kynferðislegri áreitni og ofbeldi. 

Mál fjölmiðlamannsins Sölva Tryggvasonar hefur verið mikið í umræðunni síðustu daga. Eins og fréttastofa greindi frá í dag hefur hann verið kærður fyrir líkamsárás í mars síðastliðnum. Önnur kona hefur óskað eftir skýrslutöku hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu en hún sakar Sölva um að hafi brotið gegn sér kynferðislega í júní á síðasta ári.

Kristrún Elsa Harðardóttir, lögmaður kvennanna, sendi yfirlýsingu til fjölmiðla í gærkvöld þar sem hún greinir frá ásökunum þeirra. Mál Sölva hafði þá verið í hámæli eftir að hann bar af sér sakir í eigin hlaðvarpsþætti og fékk stuðning á opinberum vettvangi. Það hvernig samfélagsmiðlarnir taka við sér má því segja að séu viðbrögð við þeim viðbrögðum sem mál hans fékk.

Vanmáttug gagnvart gerendameðvirkni

Sólborg Guðbrandsdóttir, sem hélt úti verkefninu Fávitar gegn stafrænu og annars konar kynferðisofbeldi, segir í samtali við fréttastofu að margir þolendur hafi upplifað sig vanmáttuga gagnvart þeirri gerendameðvirkni sem hún segir að fram hafi komið á samfélagsmiðlum vegna málsins. Það að einstaklingar stigi fram með sögur um kynferðisofbeldi séu viðbrögð við þeim viðbrögðum sem urðu vegna málsins sem nú er fjallað um tengt Sölva. Vonandi verði þetta til þess að önnur #metoo-bylgja fari af stað, segir Sólborg.

„Það er sorglegt að konur þurfi að opna á áföll aftur og aftur til að sanna hver veruleiki okkar er, til að fá menn til að hlusta. Mér finnst það sorglegt en því miður er það staðan,“ segir Sólborg í samtali við fréttastofu.
 

Unnur Eggertsdóttir, leik- og söngkona, tekur í svipaðan streng í samtali við fréttastofu.

„Að sjá fólk bregðast svona svakalega illa við að einhver sé sakaður um ofbeldi, fólk sem maður hefur aldrei séð bregðast svona við ef einhver hefur orðið fyrir ofbeldi. Það hefur sett af stað þessa bylgju. Ég hélt að áfanga hefði verið náð þegar #metoo og #freethenipple fóru af stað og hélt í vonina að nú myndu hlutirnir breytast, en síðustu dagar hafa sýnt að svo er ekki. Það er alltaf sama hatrið gagnvart þolendum,“ segir Unnur.

Hulda Tölgyes er ein af þeim sem greinir frá kynferðisofbeldi á Twitter í dag. Hún segir í samtali við fréttastofu að hún geri það ekki vegna ákveðins máls heldur hafi fyrst og fremst gert það í kjölfar þeirra fjölmörgu frásagna sem komið hafa fram síðasta sólarhring:

„Í þögguninni þrífst ofbeldi. Ég neita að taka þátt í því lengur. Svo lengi sem við tölum ekki um það sem er að gerast, þá er það falið. Ég vil leyfa þolendum að njóta vafans. Konur eru ekki að leika sér að segja frá kynferðisofbeldi,“ segir Hulda.

Fjölmargar sögur um kynferðisofbeldi

Hér að neðan má sjá brot af þeim fjölmörgu reynslusögum sem þolendur hafa birt á Twitter síðastliðinn sólarhring.

„Ég trúi ykkur“

Þetta hefur einnig orðið til þess að aðrir lýsa yfir eindregnum stuðningi sínum við þolendur.

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV