Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Svandís bólusett: „Þetta er smá eins og söngleikur“

Mynd: RÚV / Skjáskot
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra var meðal þeirra 14.000 sem voru boðuð í bólusetningu með bóluefni AstraZeneca í Laugardalshöll í dag, á stærsta bólusetningardeginum síðan bólusetningar við kórónuveirunni hófust hér á landi í lok síðasta árs. Ráðherra lét vel af sér að lokinni bólusetningu. „Þetta var bara æðislegt - mér finnst þetta svo magnað,“ sagði Svandís.

Það var kátt í Höllinni í morgun þegar ráðherra bar þar að skömmu fyrir klukkan 11. Plötusnúðurinn Daddi diskó spilaði þar fjöruga tónlist einkum frá 9. áratugnum og meðan ráðherra sat og beið eftir að mega yfirgefa Laugardalshöllina hljómuðu lög með Duran Duran og diskólög. „Það er einstakt að vera með stuðtónlist hérna - það á svo vel við,“ sagði Svandís. „Þetta er smá eins og söngleikur, þetta gengur allt svo vel og er svo skipulagt. Það er stórkostlegt hvað það er vel haldið utan um þetta.“

Svandís sagðist síður eiga von á að bólusetningin hefði áhrif á sumarleyfisáform hennar. „Ég ætla að ferðast innanlands og er með góð plön fyrir það. Ég var með það plan í fyrra og það breyttist. Þannig að núna á ég spennandi sumar fram undan. Svo eru náttúrulega að koma kosningar - við megum ekki gleyma því.“