Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Stóraukin eftirspurn eftir frístundanámskeiðum

Mynd með færslu
 Mynd:
Aðsókn í frístundanámskeið á vegum Reykjavíkurborgar hefur stóraukist, ekki síst nú og í fyrra þar sem fólk er minna á faraldsfæti vegna heimsfaraldursins. Reynt er að mæta eftirspurninni og vinna niður biðlista með auknu framboði. Aðsókn í vinnuskólann jókst einnig í fyrra og búist er við að sú eftirspurn haldi sér í ár.

Um 9.500 börn sóttu sumarstarf frístundaheimila borgarinnar í fyrra og jafnvel er búist við enn fleirum í sumar. Þá eru ekki talin með námskeið á vegum íþróttafélaga og annarra stofnana og samtaka. Innritun í sumarnámskeið 10-12 ára barna hefst í næstu viku þar sem eftirspurnin hefur rúmlega tvöfaldast síðustu ár. 

„Nú erum við að detta í COVID-sumar tvö og foreldrar eru mjög meðvitaðir um að mikilvægt sé að börnin þeirra hafi eitthvað uppbyggilegt og skemmtilegt fyrir stafni í sumar. Þannig við erum að sjá ótrúlega háar tölur sem nú þegar er búið að innrita í sumarfrístundina hjá okkur,“ segir Soffía Pálsdóttir, skrifstofustjóri frístundamála hjá Reykjavíkurborg.

Þegar opnað var fyrir umsóknir í lok apríl fór tölvukerfið á hliðina og margir létu óánægju sína í ljós með framkvæmdina.

„Það komust allir að að lokum, en þá kannski mætti fólki biðlistar sem fólk var ekki sátt við. Síðan höfum við unnið hörðum höndum, í fyrsta lagi var þetta kerfisvandi sem er búið að leysa. En síðan erum við líka bara með biðlista sem við erum að vinna í þessa dagana og ég vona að allir foreldrar komist að með börnin sín,“ segir Soffía.

Foreldrum mikið í mun að koma unglingum í virkni

Magnús Arnar Sveinbjörnsson, skólastjóri Vinnuskóla Reykjavíkur, segist búast við sambærilegum fjölda og í fyrra eða nokkuð yfir þrjú þúsund nemendum. Skráningum fækkar vanalega með hverjum árgangi. Í fyrra var um 85% þátttaka úr 8. bekk hjá þeim sem áttu kost á starfi hjá vinnuskólanum, 75% úr 9. bekk og um 65% úr 10. bekk.

Í fyrra var mikil fjölgun skráninga frá árinu á undan og telur Magnús það meðal annars skýrast af minna atvinnuframboði og fáum sem engum utanlandsferðum. Þá fundu menn fyrir því að foreldrum virtist mikið í mun að koma unglingunum í virkni, væntanlega eftir takmarkanir á skóla- og íþróttastarfi síðasta vor.

Sveitarfélög hafa fjölgað sumarstörfum umtalsvert og sums staðar er þegar farið að draga úr atvinnuleysi. Stjórnvöld tilkynntu í síðasta mánuði að 2,4 milljörðum króna verði varið í átaksverkefni til að fjölga tímabundnum störfum fyrir námsmenn.