Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Ólympíufarar fá bóluefni frá Pfizer

epa08767151 YEARENDER 2020 
SPORTS

The Olympic Rings monument in front of the Japan Olympic Committee headquarters in Tokyo, Japan, 24 March 2020. Later in the day, Japanese prime minister Shinzo Abe is scheduled to hold phone talks with International Olympic Committee (IOC) president Thomas Bach of Germany regarding the possible postponement of the Tokyo 2020 Olympic Games due to the coronavirus COVID19 pandemic.  EPA-EFE/FRANCK ROBICHON
 Mynd: EPA

Ólympíufarar fá bóluefni frá Pfizer

06.05.2021 - 11:52
Lyfjaframleiðandinn Pfizer ætlar að gefa keppendum á Ólympíuleikunum í Tókýó og keppendum á Ólympíuleikum fatlaðra bóluefni. Alþjóðaólympíunefndin undirritaði samning við Pfizer í dag.

Thomas Bach, forseti Alþjóðaólympíunefndarinnar, segir að þetta sé gert til þess að tryggja það að leikarnir geti farið fram. Bach segir að með því að þiggja bólusetningu geti íþróttafólk sýnt samstöðu og sent sterk skilaboð til þjóða heimsins. 

Líney Rut Haraldsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ, segir í samtali við RÚV ekki vita nákvæmlega hvernig Pfizer og Alþjóðaólympíunefndin ætli sér að útfæra þetta. Þá sé enn óljóst hversu margir skammtar séu í boði og þá hvort hægt verði að bólusetja þá keppendur sem eru í Ólympíuhópi ÍSÍ. 

Aðeins einn íslenskur íþróttamaður hefur nú þegar tryggt sér keppnisrétt á Ólympíuleikunum í Tókýó, sundmaðurinn Anton Sveinn McKee. 

27 íþróttamenn eru í Ólympíuhópi ÍSÍ. „Um er að ræða þá aðila sem eru að stefna að þátttöku og vinna markvisst að því að tryggja sér keppnisrétt á leikana sem og þá aðila sem sérsambönd ÍSÍ telji að eigi möguleika á þátttöku m.a. með því að vinna sér þátttökurétt í gegnum úrtökumót,“ segir á heimasíðu ÍSÍ. 

 

ÍSÍ kallaði eftir því í janúar að ólympíufararnir yrðu bólusettir sem fyrst.

Í bréfi Jóns Hjaltalíns Magnússonar, formanns Samtaka íslenskra ólympíufara, til forsætisráðherra var óskað eftir um þrjátíu skömmtum af bóluefni fyrir líklega ólympíufara, þjálfara þeirra og liðsstjóra. Í bréfinu kom fram að þetta myndi koma sér vel fyrir undirbúning þeirra fyrir leikana í Tókýó sem hefjast í júlí. 

Forsætisráðuneytið vísaði erindinu til landlæknis.

Þórólfur sagði á upplýsingafundi í febrúar að honum þætti ekki líklegt að ólympíufarar yrðu settir í forgang.

Frétt Reuters.