Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Milljónir hafa bæst í hóp fátækra í Kólumbíu

06.05.2021 - 20:55
Mynd: EPA-EFE / EFE
Í Kólumbíu eru efnahagslegar afleiðingar faraldursins miklar, og þeim sem lifa undir fátæktarmörkum hefur fjölgað um sjö milljónir. Að sögn kólumbísks stjórnmálafræðings er það ein af ástæðunum fyrir mótmælum þar síðustu átta daga, sem talið er að hafi leitt til dauða um þrjátíu manns. Kólumbíumenn á Íslandi komu saman á Austurvelli í dag, meðal annars til að minnast þeirra sem hafa látist í mótmælunum.

Fyrirhugaðar skattabreytingar voru dropinn sem fyllti mælinn og mótmæli brutust út. Óttast var þær að myndu koma harðast niður á fólki í millistétt og fátækum. Hætt var við þær á sunnudag en samt er áfram mótmælt. Það voru einnig fjölmenn mótmæli gegn ójöfnuði þar á seinni hluta ársins 2019 og þá stóð til að gera ákveðnar breytingar en svo braust faraldurinn út og öllu var slegið á frest. „Undanfarið eitt og hálft ár sem sóttin hefur geisað þá hefur fátækt í Kólumbíu aukið svo mikið að jafna má við áratugsþróun niður á við,“ segir Dylan Herrera, stjórnmálafræðingur og doktorsnemi í stjórnmálafræði.

Þeim hefur fjölgað um sjö milljónir sem þurfa að lifa undir fátæktarmörkum í Kólumbíu. „Þrjár og hálf milljón hafa fallið niður í sárafátækt; það þýðir að 42 prósent íbúanna eru undir fátæktarmörkum. Þetta og margvíslegar orsakir aðrar hafa orðið hvati, ekki aðeins fyrir námsmenn, heldur fólk sem starfar í flutningum og í öðrum starfsgreinum og stéttarfélögum, til að skipuleggja sig og krefjast breytinga,“ segir Herrera.

Mynd með færslu
Dylan Herrera, stjórnmálafræðingur og doktorsnemi.  Mynd: Þór Ægisson - RÚV

Sameinuðu þjóðirnar, Evrópusambandið, mannréttindasamtök og stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa fordæmt ofbeldi sem lögregla hefur beitt mótmælendur. Forseti landsins hefur aftur á móti sagt að á meðal mótmælenda sé vopnað fólk og því þurfi að bregðast við. Yfirvöld staðfesta að tuttugu og fjórir hafi látist en mannréttindasamtök telja að það séu yfir þrjátíu. „Fram til þessa, eftir næstum átta sólarhringa mótmæli, höfum við 1.443 tilkynningar um lögregluofbeldi og meðfylgjandi meiðsli. 750 lögregluþjónar hafa slasast og einn var drepinn. Við höfum 31 morð, sem lögreglan er talin hafa farið og verið er að skoða núna.“

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV

Kólumbíumenn hér á landi komu saman á Austurvelli síðdegis til að vekja athygli á mannréttindabrotum stjórnvalda gegn mótmælendum og eins til að minnast þeirra mótmælenda sem hafa látist síðustu daga. Paula Andrea Arce Suarez er ein þeirra sem skipulögðu viðburðinn í dag. Hún segir lögreglu drepa mótmælendur, þegar hún eigi að vernda það. Þau hafi viljað koma saman í dag til að sýna fólkinu heima í Kólumbíu samstöðu og krefjast þess að lögregluofbeldinu linni. 

„Við erum í næstum 8.000 kílómetra fjarlægð en mannréttindi hafa verið einn hornsteinanna í utanríkisstefnu Íslands svo að ef heyrist frá Íslandi, frá Kólumbíumönnum á Íslandi, þá er það mjög dýrmætt í okkar huga og segir mjög mikið því allt líf skiptir máli,“ segir Herrera.  

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV