Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Mikil forföll í kennaraliðinu í dag

Stillur úr umfjöllun Kveiks um stöðu kennara á Íslandi.
 Mynd: Kveikur - RÚV
Kennarar sem eru framarlega í stafrófinu fengu bólusetningu í gær, flestir með bóluefni Janssen, og eru margir frá vinnu í dag. Þorgerður Laufey Diðriksdóttir formaður Félags grunnskólakennara segir mikil forföll í sínum hópi.

„Það verður bara að segjast eins og er að það er stór hópur kennara sem fékk þess háttar eftirköst að þeir eru veikir heim í dag eða slappir í vinnunni. Það eru þessir 2 hópar,“ segir Þorgerður Laufey.

Hún hafi heyrt í þó nokkrum trúnaðarmönnum í morgun sem staðfesti þetta. Hún segir þetta koma niður á skólastarfi en óumflýjanlegt sé að svo verði, bæði að fólk þurfi að komast frá til að mæta í bólusetninguna og glíma við hugsanleg eftirköst. Og það er líka lasleiki á leikskólunum. Hulda Ásgeirsdóttir, skólastjóri á leikskólanum Tjörn við tjörnina í Reykjavík, segir að veikindin hafi töluverð áhrif á starfsemina. 

„Það voru semsagt tíu starfsmenn sem fóru í bólusetningu í gær og við erum þrjú mætt í dag, þannig að við urðum öll veik. Ég var til dæmis veik í nótt en þetta gekk hratt yfir þannig að ég er komin í dag,“ 

Og hvaða áhrif hefur þetta á starfsemina?

Þetta hefur þau áhrif, ég semsagt stýri í tveimur húsum og hérna megin þarf ég að biðla til foreldra í fyrsta sinn á mínum ferli að koma og sækja börnin fyrr í dag,“ segir Hulda.