Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Fréttir: Metfjöldi landsmanna bólusettur í dag

06.05.2021 - 18:52
Metfjöldi Íslendinga var bólusettur í dag. Nú hefur þriðjungur þeirra sem verða bólusettir, fengið að minnsta kosti annan skammtinn. Víða varð skerðing á skólastarfi vegna forfalla kennara sem veiktust eftir bólusetningu í gær.

Aðeins ein viðbragðsáætlun er til vegna hættu á gróðureldum, það er í Skorradal. Úr því þarf að bæta að mati aðstoðaryfirlögregluþjóns. Óvissustigi vegna gróðurelda var lýst yfir á suðvestanverðu landinu í dag. 

Þeim sem lifa undir fátæktarmörkum hefur fjölgað um milljónir í Kólumbíu. Tuttugu og fjórir hið minnsta hafa látist í mótmælunum sem enn geisa. Kólumbíumenn á Íslandi komu saman á Austurvelli í dag til að vekja athygli á stöðunni. 

Nýtt þorskastríð virtist í uppsiglingu í Ermarsundi í dag vegna deilu á milli Breta og Frakka um fiskveiðar. Tvö bresk herskip voru send að eynni Jersey - en kölluð aftur heim fyrir skömmu.

Eitt stærsta tölvuleikjamót í heimi hófst í Laugardalshöll í dag. Um 600 manns koma til landsins vegna þess og mjög strangar sóttvarnir eru í gildi í Höllinni.

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV