Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Farþegaflaug SpaceX stóðst prófið

06.05.2021 - 02:23
In this image from video made available by SpaceX, a Starship test vehicle sits on the ground after returning from a flight test in Boca Chica, Texas on Wednesday, May 5, 2021. (SpaceX via AP)
 Mynd: AP
Tilraunaflug bandaríska geimvísindafyrirtækisins SpaceX á Starship flaug þess heppnaðist vel í gærkvöld. Flauginni var skotið á loft frá Texas síðdegis að staðartíma, og lenti nokkrum mínútum síðar. Henni var flogið upp í um tíu kílómetra hæð og flugæfingar gerðar áður en henni var snúið aftur við. Elon Musk, eigandi SpaceX, sagði lendinguna hafa heppnast vel.

Talsvert var undir hjá SpaceX í þessu reynsluflugi. Þetta var fimmta tilraun SpaceX við að koma Starship á loft, en fyrri fjórar tilraunirnar enduðu með miklum sprengingum. 

Á vef SpaceX segir að Starship eigi að vera endurnýtanleg flaug, líkt og aðrar sem fyrirtækið býr til. Þessi er þó kraftmeiri en fyrri flaugar fyrirtækisins, og á að geta komið bæði mönnum og búnaði á sporbraut um jörðu, til tunglsins, Mars og lengra. 

Bandaríska geimvísindastofnunin NASA tilkynnti nýverið að Starship flaugarnar verði notaðar til þess að flytja fólk til tunglsins þegar það verður gert á nýjan leik. Sá samningur var svo lagður til hliðar eftir að tvö önnur einkafyrirtæki, Blue Origin og Dynetics, kvörtuðu við NASA.

Blue Origin greindi einmitt frá því í gær að fyrsta mannaða flug fyirrtækisins taki á loft 20. júlí. Eitt sætanna er falt á uppboði á vefnum. Ferðin verður samanlagt tíu mínútur, þar af fjórar mínútur í um hundrað kílómetra hæð. Blue Origin er í eigu auðkýfingsins Jeff Bezos, eiganda Amazon.