Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Dæmd fyrir að slá son sinn eftir deilu um Fortnite

06.05.2021 - 16:23
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Héraðsdómur Reykjaness dæmdi í morgun móður í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi og til að greiða syni sínum hálfa milljón í miskabætur. Hún sló son sinn ítrekað með flötum lófa eftir að þeim sinnaðist þegar hún reyndi að fá hann til að hætta að spila tölvuleikinn Fortnite. Fyrrverandi sambýlismaður móðurinnar var sýknaður af ákæru um að hafa haldið drengnum föstum á meðan móðirin sló hann. Hann var talinn hafa verið að koma í veg fyrir að drengurinn „hjólaði í móður sína“.

Fram kemur í dómi héraðsdóms að upp úr hafi soðið á heimilinu í febrúar á síðasta ári þegar drengurinn neitaði að slökkva á tölvu sinni og fara að sofa.  

Móðirin greindi lögreglu frá því að drengurinn hefði verið henni mjög erfiður mánuðina á undan og verið mikið í tölvuleiknum Fortnite sem hún sagði hafa gert hann mjög æstan. Hann hefði verið kominn með „tölvusturlun“.

Þetta kvöld hefði sama verið uppi á teningnum.  Hann hefði fengið að spila lengur en venjulega en hún svo beðið hann um að slökkva. Þegar hann hlýddi ekki hefði hún sjálf slökkt en hann þá brugðist reiður við, öskrað á hana og kveikt á tölvunni aftur.  Hún hefði þá farið fram í stofu, slökkt á netbeini og hann þá komið fram, enn reiðari en áður.

Eftir þetta ber móðurinni, sambýlismanni hennar fyrrverandi og syninum ekki saman um hvað gerðist.

Saksóknari sagði fyrir liggja að móðirin og fyrrverandi sambýlismaður hennar hefðu beitt drenginn ofbeldi, hann hefði hlotið blæðandi sár í munni og í framhaldinu verið ekið til frænku sinnar. Síðan þá hefði hann ekki viljað hitta móður sína heldur kosið að vera hjá föður sínum þar sem hann býr núna. Drengurinn greindi frænku sinni og föður frá því að móðir hans hefði beitt hann ofbeldi frá því að hann var barn.

Móðirin byggði mál sitt á því að hún hefði alltaf gengist við því að hafa beitt son ofbeldi og kannast við þá „ömurlegu uppákomu sem varð á heimili hennar“. Ekki ætti að taka mikið mark á framburði fyrrverandi sambýlismanns hennar þar sem þau væru hætt saman og sambandsslitin verið illvíg. Hann hefði hótað henni og sagst ætla ná sér niðri á henni. Hún gerði allt sem hún gæti fyrir drenginn en aðrir væru að vinna gegn henni.

Sambýlismaðurinn sagðist ekki hafa gert neitt annað en að stíga inn í atburðarás og koma bæði drengnum og móðurinni til aðstoðar í „fjölskylduharmleik sem átti sér forsögu.“ Hann sagði að ekki hefði liðið einn dagur þar sem drengurinn hefði komið fram við þau „eins og eðlilegur krakki myndi gera.“

Héraðsdómur bendir á að móðirin og sambýlismaðurinn neiti bæði sök og vísi ábyrgð á hvort annað eða drenginn. Dómurinn kemst að þeirri niðurstöðu að móðirin hafi veist að drengnum með ofbeldi og háttsemi hennar verið ógnandi, ruddaleg, ósiðleg og undir engum kringumstæðum réttlætanleg. 

Taldi dómurinn að drengurinn ætti að njóta friðhelgi og öryggis á heimili sínu, óháð hörðum viðbrögðum sínum við því að móðir hans kæmi í veg fyrir frekari tölvunotkun. Var hún því sakfelld, dæmd í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi og gert að greiða syninum hálfa milljón í miskabætur.

Sambýlismaðurinn fyrrverandi var hins vegar sýknaður þar sem hann var eingöngu talinn vera að koma í veg fyrir að „drengurinn hjólaði í móður sína.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV