Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Bresk varðskip send að Jersey

06.05.2021 - 04:30
Mynd með færslu
 Mynd: CC0 - Pixabay
Tvö skip breska sjóhersins verða við eftirlit nærri stærstu höfn eyjunnar Jersey í Ermarsundi eftir hótanir Frakka. Styr stendur um veiðiréttindi á Ermarsundi eftir Brexit, og hóta Frakkar að slá út rafmagninu á Jersey fái þeir sínu ekki framgengt.

Nýjar veiðireglur eftir Brexit gera þá kröfu til franskra skipa að þau sýni fram á að þau hafi veitt þar áður. Sýni þau ekki veiðisögu sína á hafsvæðinu í kringum Jersey fá þau ekki veiðileyfi. Yfirvöld í Jersey eru ein um útgáfu veiðileyfanna. Frá því í síðustu viku verða öll fiskiskip að vera með slík leyfi til að fá að stunda veiðar í landhelgi Jersey.

Yfirvöld í Jersey gáfu út 41 leyfi til franskra skipa á föstudag. Þau eru öll þannig útbúin að hægt er að fylgjast með ferðum þeirra. Að sögn BBC er franska stjórnin ósátt vegna þess að yfirvöld í Jersey geri aðrar og meiri kröfur en samið var um.

Ólíðandi aðgerðir

Annick Girardin, sjávarútvegsráðherra Frakklands, hótaði því á franska þinginu á þriðjudag að Frakkar slái út rafmagninu á Jersey. Eyjan fær nær allt sitt rafmagn í gegnum sæstreng frá Frakklandi. Girardin sagði nýju reglurnar um veiðileyfi við Ermarsundseyjarnar ólíðandi og því væru Frakkar reiðubúnir að grípa til örþrifaráða.

Búist er við um hundrað frönskum togurum að bryggjunni í St. Helier í dag, þeirri stærstu á Jersey. Dimitri Rogoff, yfirmaður sjávarútvegsmála á Normandy í Frakklandi, segir togarana ekki ætla að hamla umferð að bryggjunni, og þeir sigli til baka seinni partinn.

Taka hótunum alvarlega

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, segir allar tilraunir til að hindra aðgang að höfnum Jersey algjörlega óviðundandi. Hann hafi því sent herskipin á vettvang í varnaðarskyni. 

Ian Gorst, fulltrúi lögþings Jersey í utanríkismálum, segir hótanir Frakka ekki í neinu samræmi við alvarleika málsins. Hann segir í samtali við BBC að hann búist við friðsamlegum mótmælum franskra sjómanna í dag. Hann bætti því við að eyjaskeggjar taki hótunum um hindranir innsiglinga mjög alvarlega, en sagðist gera þá kröfu að málið yrði leyst með viðræðum.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV