Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Af fallsvæðinu yfir í úrslitakeppnina

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Af fallsvæðinu yfir í úrslitakeppnina

06.05.2021 - 22:17
Tveir leikir fóru fram í kvöld þegar næst síðasta umferðin í úrvalsdeild karla fór fram. Haukar voru fallnir fyrir leik en Höttur, ÍR og Njarðvík berjast um að halda sér í deildinni.

Njarðvík var betri aðilinn framan af leik þegar liðið sótti ÍR heim í kvöld og var 57-48 yfir í leikhléi. Seinni hálfleikur var svo mjög sveiflukenndur og forystan gekk liðanna á milli. Á endanum fór það svo að Njarðvík hafði sigur með 106 stigum gegn 99 og komst aftur upp fyrir Hött. Þessi úrslit þýða að ÍR og Njarðvík eru með 16 stig, tveimur meira en Höttur. Njarðvík er sem stendur í áttunda sæti deildarinnar. Endi Höttur og Njarðvík jöfn eftir lokaumferðina fellur Njarðvík en endi öll þrjú liðin jöfn, fellur Höttur, allt vegna innbyrðisúrslita liðanna sem enda jöfn. Lokaumferðin er á mánudag.

Í hinum leik kvöldsins vann KR Stjörnuna 96-85 í Garðabæ. Í þeim leik tóku KR-ingar snemma forystu í leiknum og létu hana aldrei af hendi. Þetta var fyrsti sigur KR í deildinni síðan 18. mars.