Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Vilja afnema hugverkavernd yfir bóluefnum við COVID-19

05.05.2021 - 21:56
epa09179727 US President Joe Biden speaks about his coronavirus relief package, the American Rescue Plan, in the State Dining Room of the White House in Washington, DC, USA, 05 May 2021. The 1.9 trillion US dollar COVID-19 relief package was signed into law in March 2021.  EPA-EFE/JIM LO SCALZO
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Bandarísk yfirvöld lýstu í kvöld yfir stuðningi við að hugverkavernd yfir bóluefnum við COVID-19 verði afnumin til þess að stuðla að því að fleiri ríki geti framleitt bóluefni. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur kallað eftir því að ríki heims tryggi að reglur um alþjóðaviðskipti hamli ekki baráttunni gegn heimsfaraldrinum.

AP-fréttastofan greindi frá þessu í kvöld. Í yfirlýsingu bandarískra yfirvalda kom fram að þrátt fyrir að Bandaríkin teldu mikilvægt að standa vörð um hugverkavernd væri nú forgangsatriði að ná tökum á faraldrinum um allan heim. Yfirlýsingin kom í beinu framhaldi af lokuðum fundi viðskiptafulltrúa ríkja innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um leiðir til að auka aðgengi að bóluefnum við COVID-19. 

Indland og Suður-Afríka voru fyrstu ríkin til þess að leggja það til innan Alþjoðaviðskiptastofnunarinnar að hugverkavernd yfir bóluefnum yrði afnumin og nú hafa rúmlega hundrað ríki lýst yfir stuðningi við tillöguna.

Tillagan var einna helst gagnrýnd af þeim ríkjum sem hýsa stóra lyfjaframleiðendur. Gagnrýnendur hafa haldið því fram að framleiðsla á bóluefnum við COVID-19 sé svo flókin að það geri lítið gagn að afnema hugverkavernd, og að slík ákvörðun gæti haft slæmar afleiðingar fyrir nýsköpun í framtíðinni. 
 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV