Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Trúnaðarmaður rekinn og kærður - fær ekki bætur

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Íslenska ríkið var í vikunni sýknað af kröfu starfsmanns sem vildi 17 milljónir í skaðabætur fyrir ólögmæta uppsögn. Hann var trúnaðarmaður stéttarfélags síns á vinnustaðnum en var talinn hafa rofið trúnað með því að safna saman launagögnum allra starfsmanna á vinnustaðnum. Vildi hann sanna að starfsmenn á hans deild væru með lægri laun en starfsmenn annarra deilda. Málið var rannsakað af lögreglu en var á endanum fellt niður af ríkissaksóknara.

Í dómi héraðsdóms kemur fram að starfsmaðurinn hafi lagt launagögnin fram á fundi með sviðsstjóra fyrirtækjasviðs og deildarstjóra hjá stofnuninni í ágúst fyrir tæpum sex árum.    

Strax eftir fundinn hafði sviðsstjórinn samband við forstöðumann stofnunarinnar og greindi honum frá því hvað hafði gerst.  Þremur dögum seinna var starfsmaðurinn boðaður á fund þar sem hann upplýsti að hann hefði nýtt svokallaðan staðgreiðslugrunn ríkisskattstjóra, sem hann hafði aðgang að vegna starfs síns, til að sækja gögn um allar launagreiðslur hjá stofnuninni.  Honum var gert ljóst að þetta teldist trúnaðarbrot og var sendur í launað leyfi í viku.

Málið var kannað frekar og kom í ljós að hann hafði einnig aflað upplýsinga um fyrrverandi starfsmenn stofnunarinnar og keyrt út gögn frá öðrum en sínum eigin vinnustað.  Í framhaldinu var ákveðið að segja honum upp störfum.

Í dómnum kemur fram að atvikið hafi verið kært til ríkissaksóknara sem fól lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu að rannsaka það, meðal annars á grundvelli þess að brotið hefði verið gegn lögum um þagnarskyldu opinberra ríkisstarfsmanna og persónuverndarlögum. 

Tvö og hálft ár liðu þar til skýrsla var tekin af starfsmanninum og það rataði ekki inn á borð héraðssaksóknara fyrr en fjórum árum eftir uppsögnina. Héraðssaksóknari felldi málið niður og var sú ákvörðun kærð til ríkissaksóknara sem staðfesti hana í fyrra, nærri fimm árum eftir að málið kom upp. 

Starfsmaðurinn taldi uppsögnina ólögmæta. Enginn fótur hefði verið fyrir því að hann hefði misnotað stöðu sína með langvarandi hætti eða sýnt einsettan brotavilja eins og haldið hefði verið fram.

Hann benti á að hann hefði verið trúnaðarmaður stéttarfélags á vinnustaðnum og verið að undirbúa samningaviðræður um stofnanasamning á vinnustað. Hann hefði haft starfsmannastjóra grunaðan um að fara með rangt mál varðandi laun starfsmanna og uppsögnina mætti rekja til verka hans sem trúnaðarmanns.  Vinnustaðurinn hefði með uppsögn hans skipt sér af stéttabaráttu.

Hann krafðist launa fyrir 27 mánuði og miskabætur upp á 1,5 milljónir vegna rannsóknar lögreglu.  Uppsögnin hefði valdið honum álitshnekki og öðrum óþægindum að ósekju. Hann hefði verið borinn þungum sökum um hegningarlagabrot sem ekki hefði staðist  þegar það var rannsakað. 

Sakamálarannsóknin hefði staðið í fjögur og hálft ár, sett líf hans úr skorðum og leitt til hjónaskilnaðar. 

Vinnustaðurinn hafnaði því að maðurinn hefði verið afla upplýsinga til að undirbúa samningaviðræður.  Hann hefði heldur ekki sýnt fram á tjón því hann hefði fljótlega ráðið sig í aðra vinnu. Þá væri bótakrafan fyrnd enda hefði honum verið sagt upp í september 2015.

Héraðsdómur taldi kröfuna vera fyrnda og hafnaði sömuleiðis miskabótakröfunni þar sem óljóst væri hvar ábyrgð vinnustaðarins lægi og svo íslenska ríkisins vegna sakamálarannsóknarinnar. Rétt þótti þó að fella niður málskostnað.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV