Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þurfti að bíða í tæpa 4 sólarhringa með látið barn

05.05.2021 - 19:34
Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Foreldrar gagnrýna Landspítalann harðlega fyrir að láta móðurina bíða í tæpa fjóra sólarhringa með að fæða andvana barn. Hún var send heim á föstudegi eftir að henni var tjáð andlát barnsins. Hún gagnrýnir Landspítalann harðlega fyrir að tilkynna henni um andlátið án þess að veita nokkurn sálrænan stuðning. Fæðing var gangsett á mánudeginum og barnið fæddist á þriðjudeginum, tæpum fjórum sólarhringum eftir að vitað var um andlátið.

Sigríður Jónsdóttir var gengin hálfa meðgöngu þegar fékk hún fór í skoðun í mæðravernd á Landspítalanum föstudaginn 23. apríl, fyrir tæpum hálfum mánuði. Tveimur dögum áður hafði allt komið vel út í skoðun. 

„Hún leitar að hjartslætti, ljósmóðirin, inni á stofu og finnur hann ekki. Þannig að hún segir við mig að hún ætli að kalla til fæðingarlækni sem framkvæmir þá sónarskoðun. Þá er kallaður til annar fæðingarlæknir af því að hún segir mér að það þurfi að vera tveir sérfræðingar til að staðfesta svona. En ég vissi í raun ekki: staðfesta hvað? Þarna var aldrei búið að segja mér í rauninni að hjartslátturinn væri ekki lengur til staðar. En svo kemur annar fæðingarlæknir og hún staðfestir þeirra grun um að það er enginn hjartsláttur,“ segir Sigríður.

Þá er tekin blóðprufa, þvagprufa og veirupróf. Síðan er Sigríði tjáð að það þurfi að framkalla fæðingu.

„Og þá bendir hún mér á dagsetningar og tímasetningar og ég var eiginlega ekki að tengja við þetta, mér fannst svo skrítið þegar hún fór að tala um að þetta yrði á mánudag. Ég spurði: hvað er næsta skref. „Jú, svo kemur þú bara á mánudaginn klukkan sjö og þá byrjum við gangsetningarferli.“

„Í smástund þurfti ég bara að hugsa: Það er föstudagur, klukkan er að verða hálf fimm. Er ég í alvörunni að fara heim? Þegar ég spurði aftur: Á ég bara að fara heim þá? „Já, svo ferðu bara heim um helgina af því að það er föstudagur. Við framköllum ekki svona yfir helgi,“ er Sigríði tjáð.

„Í heildina frá því að ég veit að það er ekki hjartsláttur þar til ég er komin út eru 29 mínútur,“ segir Sigríður.

Hún hringdi hágrátandi í manninn sinn af spítalanum.

„Ég skildi ekki það sem hún var að segja við mig þegar hún hringdi, fyrir það fyrsta. Það tók hana alveg góða mínútu að koma því til skila að stelpan væri dáin. Það hefði verið rosalega gott ef það hefði verið einhver fagaðili sem hefði verið: Sæll, Magnús, Það er í lagi með Sigríði en það kom svolítið upp á ... og svo framvegis. Það var ekki. Við erum því miður að sjá svolítið margar sögur um að þetta sé ekki undantekning,“ segir Magnús Kjartan Eyjólfsson.

Að þið séuð ekki ein um að hafa lent í þessu? „Já,“ segir Magnús.

Á spítalanum var Sigríði réttur bæklingur sem unninn var í samvinnu við Kvennadeild Landspítalans. Þar er mælt með því að fæðing sé ekki seinna en sólarhring eftir andlát.

„Ég var spurð rétt eftir þetta hvort ég hafi eitthvað hugsað út í krufningu. Satt best að segja varð ég kjaftstopp. Nei, ég hafði ekki hugsað út í krufningu en ég hafði aftur á móti hugsað mér að skíra dóttur mína í desember eða nóvember,“ segir Sigríður.

Sigríður fékk því enga áfallahjálp þennan dag. Fjölskyldan er búsett á Laugarvatni og það tók Magnús og föður hans um klukkutíma að keyra til Reykjavíkur. 

„Þá hefði mér líka þótt rosalega vænt svo þegar ég kem upp á spítala að mæta ekki og sjá hana sitja í bílnum, hágrátandi aleina í bílnum með engan við hliðina á sér,“ segir Magnús.

„Ég fann draugahreyfingar alla helgina. Svo áttar maður sig á því, já, hún er ekki barnið sem afsannar regluna og er ekki dáin. Jú, hún er dáin og þetta er hún sem hreyfist líflaus í legvatninu,“ segir Sigríður.

Á mánudag var svo fæðing gangsett og barnið fætt daginn eftir.

Fréttastofa óskaði eftir viðtali við Landspítalann um málið en því var hafnað. Í skriflegu svari upplýsingafulltrúa spítalans segir: „Jafnvel þótt við kostgæfum að veita okkar 120 þúsund skjólstæðingum ár hvert eins fagmannlega, góða, vandaða og örugga þjónustu og nokkur kostur er 24/7, þá tjáir Landspítali sig aldrei um einstök mál.“

„Það þarf að vera einhver rauður hnappur í svona stöðu. Það þarf að vera einhver verkferill sem fer í gang sem grípur fólk. Að heilbrigðiskerfið geti bara stimplað sig út í helgarfrí klukkan fjögur á föstudegi er ekki ásættanlegt,“ segir Sigríður.

 

Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV