Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Stækkaði óvart Belgíu á kostnað Frakklands

05.05.2021 - 06:46
Erlent · Belgía · Frakkland · Evrópa
Mynd með færslu
Erquelinnes í Belgíu. Mynd: Jean-Pol GRANDMONT - Wikimedia Commons
Bóndi nokkur í Belgíu færði óvart landamæri ríkisins að Frakklandi um rúma tvo metra. Steinn sem olli honum óþægindum við bústörfin reyndist marka landamæri ríkjanna.

Steininum var komið fyrir við bæinn Erquelinnes í Belgíu þegar landamærin að Frakklandi voru mörkuð eftir að Napóleón var sigraður við Waterloo árið 1819. Að sögn Guardian var það áhugamaður um sagnfræði sem sá fyrir tilviljun fyrir um hálfum mánuði að steinninn var á röngum stað. Steinninn hafði verið færður um rúma tvo metra, svo bóndinn kæmist nú ferða sinna á dráttarvélinni. Þessi stutta tilfærsla stækkaði landsvæði Belgíu um nærri þúsund fermetra á kostnað Frakklands. 

Avec une équipe de tf1 à la frontière entre Bousignies et Montignies. On a bougé la borne de 1819, la Belgique et notre...

Posted by David Lavaux on Mánudagur, 3. maí 2021

David Lavaux, bæjarstjóri Erquelinnes, benti góðfúslega á að bóndanum beri lagaleg skylda til þess að koma steininum aftur fyrir á sínum fyrri stað. Kíminn sagðist bæjarstjórinn þó nokkuð sáttur við að bærinn hans hafi stækkað aðeins. Til þess að koma í veg fyrir landamæradeilur væri þó betra að að færa bæjarbúum í Bousignies-sur-Roc það sem þeim ber. Sjái bóndinn að sér leysist málið að sjálfu sér, sagði Lavaux með bros á vör.

Neiti bóndinn hins vegar að færa steininn aftur á sinn stað gæti málið endað á borði belgíska utanríkisráðuneytisins. Þar þyrfti að skipa nefnd um landamæri Belgíu og Frakklands, sem hefur ekki þurft að koma saman síðan 1930. Aurelie Welonek, bæjarstjóri Bousignies-sur-Roc, sagðist þó í viðtali við fjölmiðil í heimabænum að ekki séu líkur á að þessar landamæradeilur leiði til stríðs.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV