Slökkviliðið nýtur aðstoðar dróna í nótt

Mynd: Ívar Gunnarsson / Ívar Gunnarsson
Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu hefur ráðið niðurlögum sinueldsins í Heiðmörk að langmestu leyti að sögn varðstjóra slökkviliðsins. Á næstunni verður að öllum líkindum dregið úr fjölda þeirra sem eru þar að störfum, en einhver hópur fylgist með gangi mála á vettvangi í nótt.

Erfitt er að sjá reykinn stíga upp úr skóginum í myrkrinu, og njóta slökkviliðsmenn því aðstoðar dróna sem útbúinn er hitamyndavél til þess að meta aðstæður.

Eldurinn kviknaði á fjórða tímanum í dag og var allt tiltækt slökkvilið kallað út. Slökkviliðið naut svo aðstoðar Landhelgisgæslunnar, lögreglu og björgunarsveita þegar mest lét. Þyrla Landhelgisgæslunnar var notuð til þess að skvetta vatni yfir eldinn en vatnsbúnaðurinn bilaði undir kvöld. Um tveir ferkílómetrar urðu fyrir barðinu á sinueldinum. Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, segir skelfilegt að horfa upp á svo dýrmætt svæði brenna.