Lætur strandveiðidraum rætast og tekur strákinn með

Mynd: Unak.is / RÚV

Lætur strandveiðidraum rætast og tekur strákinn með

05.05.2021 - 14:54

Höfundar

Stefán B. Sigurðsson, fyrrverandi rektor Háskólans á Akureyri, ætlar að láta gamlan draum rætast og hefja strandveiðar í sumar. Hann hefur fest kaup á bát og ráðið son sinn, sem er námsmaður í Svíþjóð, sem háseta. Stefán var gestur á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun.

Strandveiðar vinsælar í ár

Fyrsti dagur strandveiða þetta sumarið var á mánudaginn. Tímabilið nær yfir sumarmánuðina maí, júní, júlí og ágúst og er hverjum bát heimilt að róa tólf daga í hverjum mánuði. Töluverður áhugi er á strandveiðum í ár og samkvæmt tölum frá Fiskistofu í gær voru 434 bátar komnir með virk strandveiðileyfi. Í fyrra var gefið út 331 strandveiðileyfi í upphafi tímabilsins.

„Þetta verður hörkuvinna“

Stefán, sem hefur lengi verið áhugamaður um fiskveiðar og átt skemmtibát, keypti á dögunum bát sem hentar til strandveiða frá Borgarfirði eystra. Hann vinnur nú að því að koma bátnum norður svo hann geti farið á veiðar. „Við eigum lítið hús úti á Árskógssandi og þaðan munum við gera út bátinn og landa á Dalvík. Þetta verður hörkuvinna, það er ekkert vafamál.“

Gamall draumur

Stefán, sem lét af störfum sem rektor Háskólans á Akureyri árið 2014, segir að vegna anna í vinnu hafi dregist að draumurinn yrði að veruleika. „Þetta er búið að vera í draumur í má segja 10 ár. Ég keypti mér bát fyrir 10 árum síðan og ætlaði að fara út í svona veiðar á sumrin en það dróst því það var mikið vinnuálag yfir veturinn sem dróst oft langt inn á sumarið þannig að það hefur ekki orðið úr því.“

Tekur strákinn með

En hann ætlar ekki einn í þetta ævintýri. „Ég er nú orðinn 73 ára gamall og er að láta drauminn rætast. En strákurinn minn yngsti, hann er nú 39 ára gamall. Hann er búinn að vera undanfarin ár í námi í Svíþjóð og hann ætlar að fara með mér á strandveiðar. Hann ætlar að sjá um gamla eins og hann kallar það.“ 

Nú eru þetta langir dagar, þú ert ekkert hræddur um að ykkur feðgum sinnist í allri þessari samveru? 

„Nei, ég hef engar áhyggjur af því, ekki til. Þetta hefur gengið vel þessi 39 ár sem við höfum átt samskipti. Ég bara hlakka til.“

Með sjómennsku í blóðinu

Stefán segir að þó hann hafi ekki stundað strandveiðar áður sé það honum í blóð borið. „Föðurafi minn stundaði sjómennsku alla sína æfi, bjó á Hjalteyri við Eyjafjörð. Faðir minn starfaði sem loftskeytamaður á sjó en hann fór alltaf og hafði tengingar og þegar hann var í fríi og eitthvað slíkt, þá fór hann á sjó á fiskibát og þegar hann var kominn á eftirlaun þá stundaði hann sjómennsku. Þannig að þetta er mjög sterkt í okkur. 

Viðtalið við Stefán má nálgast í heild sinni í spilaranum hér að ofan. 

Tengdar fréttir

Sjávarútvegsmál

Óbreytt reglugerð um strandveiðar

Innlent

Framhald strandveiða í september siglir í strand

Sjávarútvegsmál

Strandveiðarnar að stöðvast

Sjávarútvegsmál

Strandveiðar fara almennt vel af stað