Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Ísland metur 148 lönd sem há-áhættusvæði

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Sigurðsson - RÚV
148 lönd eru nú metin sem há-áhættusvæði í nýrri reglugerð heilbrigðisráðuneytisins sem tekur gildi á föstudag. Farþegar frá 131 landi geta sótt um undanþágu frá sóttkví í sóttvarnahúsi en farþegum 17 landa er skylt að dveljast á sóttkvíarhóteli milli fyrri og seinni sýnatöku meðal annars frá meginlandi Spánar. Þeir sem framvísa vottorði um fyrri sýkingu eða bólusetningu eru áfram undanþegnir sóttkví en þurfa að fara í eina sýnatöku við komuna til landsins.

Á vef heilbrigðisráðuneytisins kemur fram að ástæðan fyrir þessari miklu fjölgun sé sú að nú hafi verið bætt við hlutfalli af jákvæðum sýnum. 

Listann yfir löndin 148 má sjá hér. 

Þannig þurfa farþegar frá löndum þar sem nýgengi smita er hærra en 700 skilyrðislaust að vera í sóttkví á sóttkvíarhóteli. Við þetta bætast farþegar frá löndum þar sem nýgengi er 500 til 699 smit og hlutfall jákvæðra sýna fimm prósent eða hærra. Eitt land bætist við á þennan lista frá fyrri reglugerðinni.

Ráðuneytið segir þetta helgast af því að ef hlutfall jákvæðra sýna er hátt bendi það til þess að samfélagssmit sé útbreiddara en tölur um nýgengi benda til.

Farþegar frá löndum þar sem nýgengi er á bilinu 500 til 699 þurfa að fara í sóttkví á sóttkvíarhóteli en geta sótt um undanþágu. Sama gildir um farþega landa þar sem nýgengi er lægra en hlutfall jákvæðra sýna er fimm prósent eða hærra. 

Undanþágan þarf að berast tveimur dögum fyrir komuna til landsins og viðkomandi verður að geta sýnt fram á það með fullnægjandi hætti að hann geti uppfyllt skilyrði sóttkvíar í heimahúsi. Meðal þeirra landa sem eru á þessum lista er Páfastóll.

Þegar fyrri reglugerðin tók gildi 27. apríl voru 32 lönd á lista yfir hááhættusvæði. Farþegar frá 16 löndum þurftu skilyrðislaust að vera á sóttkvíarhóteli en farþegar frá hinum löndunum 16 gátu sótt um undanþágu. 

Frá 10. maí geta farþegar frá Færeyjum komið til landsins án þess að framvísa vottorði eða fara í sýnatöku og sóttkví. Færeyjar og Grænland eru einu löndin sem eru á svokölluðum lág-áhættulista sóttvarnalæknis. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV