Andlát sendiráðsstarfsmanns í Íran rannsakað

05.05.2021 - 06:05
epa09177497 A man on a motorbike rides past the high-riser where a Swiss embassy staff was resident, in the Kamranieh neighbourhood in Tehran, Iran, 04 May 2021. According to the emergency service spokesman, a senior woman diplomat of the Swiss embassy died in fall from a high-rise building in Kamranieh neighbourhood of Tehran.  EPA-EFE/ABEDIN TAHERKENAREH
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Rannsókn er hafin á andláti starfsmanns svissneska sendiráðsins í Teheran. Lík starfsmannsins fannst við íbúðablokk, þaðan sem talið er að hann hafi fallið af sautjándu hæð.

Al Jazeera hefur eftir yfirlýsingu lögreglu að hinn látni sé 52 ára svisslendingur. Mojtaba Khaledi, talsmaður almannavarna í Íran, sagði í samtali við fjölmiðla að líkið væri af konu, sem vann sem fyrsti sendiráðsritari. Hún bjó í blokkinni.
Svissneska utanríkisráðuneytið staðfesti að starfsmaður sendiráðs þeirra í Íran hafi dáið af slysförum. Sendiráðið í Íran vinnur náið með írönskum yfirvöldum við rannsókn málsins, segir í yfirlýsingu ráðuneytisins. Íranska utanríkisráðuneytið sagði að yfirlýsing verði gefin út um leið og rannsókn á tildrögum slyssins er lokið.

Svissneska sendiráðið fer meðal annars með mál Bandaríkjanna í Íran. Þannig hefur málum verið háttað allt síðan stjórnvöld í Washington slitu öllum stjórnmálatengslum við Íran eftir byltinguna 1979.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV