Spurði hvort setja ætti lög um símaeign barna

04.05.2021 - 13:21
Mynd með færslu
 Mynd: Tomáš Hustoles - Burst
Hjálmar Bogi Hafliðason, varaþingmaður Framsóknarflokksins, velti því upp við upphaf þingfundar á Alþingi í dag hvort setja ætti aldursmörk við því hvenær börn mættu eignast snjallsíma með netaðgangi og samskiptaforritum. Hann sagði aldursviðmið gilda um margt í lífi barna og ungmenna og spurði hvort tími væri kominn á slíkt þegar snjallsímar væru annars vegar.

Hjálmar Bogi hóf ræðu sína á því að fara yfir þau aldursmörk sem gilda meðal annars um hvenær börn megi fara ein í sund, hvenær þau megi ganga í stjórnmálaflokk, hvenær þau verða sakhæf, hvenær þau mega kaupa áfengi og hvenær almennar útivistarreglur gilda ekki lengur um þau.

„Veröldin breytist hratt í hraðadýrkandi neyslusamfélagi,“ sagði Hjálmar Bogi. „Er kominn tími til að skilgreina í lögum hvenær barn má eignast snjallsíma?“ Hjálmar sagði að sett hefðu verið viðmörk um orkudrykkjanotkun barna og ungmenna því vitað væri að slík neysla hefði áhrif. Hann spurði hvers vegna níu ára barn mætti eignast snjallsíma með samskiptaforritum og velti því upp hvort ástæða væri til lagasetningar um farsímanotkun ungmenna. Hjálmar spurði hvort kannski ætti að ákveða með lögum að einstaklingur megi eignast snjallsíma með neti og samskiptaforritum fimmtán ára?