Slökkviliðið berst enn við gróðurelda í Heiðmörk

Mynd: RÚV / RÚV
Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, björgunarsveitir og lögregla keppast enn við að ráða niðurlögum gróðurelda í Heiðmörk. Slökkvistörf hafa nú staðið yfir í um sex klukkustundir og um tveir ferkílómetrar eru undir. Erfitt hefur reynst að koma slökkvibúnaði að eldinum og varðstjóri hjá slökkviliðinu segir að þrátt fyrir að tekist hafi að halda útbreiðslunni í skefjum sé enn heilmikil vinna fram undan.

Í eftirmiðdaginn hellti þyrla landhelgisgæslunnar vatni yfir eldinn en vatnsbúnaðurinn bilaði svo undir kvöld. Jónatan Garðarson, formaður Skógræktarfélags Íslands, segir skelfilegt að horfa upp á svo dýrmætt svæði brenna. 

„Það er ennþá allt í skrúfunni og allt í gangi. Það er ekkert nýtt að frétta,“ segir varðstjóri í samtali við fréttastofu. Allt tiltækt slökkvilið, lögregla, björgunarsveitir og Landhelgisgæslan hafa barist við gróðureldana með aðstoð þyrlu frá því fyrir fjögur í dag. Mjög virðist hafa dregið úr reyknum sem leggur frá svæðinu.  

Á kortinu hér að neðan má sjá nokkurn veginn svæðið sem brennur. 

Mynd með færslu
 Mynd: Jónatan Garðarsson - RÚV