Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Slakað á sóttvörnum í Danmörku

04.05.2021 - 17:38
Mynd með færslu
 Mynd: CC0 - Pixabay
Stjórnvöld í Danmörku ætla að slaka töluvert á reglum um sóttvarnir frá fimmtudegi. Kvikmyndahús verða opnuð að nýju, sömuleiðis líkamsræktarstöðvar og spilasalir. Mun fleiri fá að sækja menningarviðburði en áður var leyfilegt.

Þingmenn á danska þinginu skiptust á skoðunum fram á nótt um tilslakanir. Að lokum urðu þeir ásáttir að boða alla grunnskólanemendur aftur í skólann og sömuleiðis nemendur í starfsgreinanámi. Heimilt verður að stunda hópíþróttir, sundlaugar verða opnaðar og allt að tvö þúsund mega koma saman á ráðstefnur og þess háttar að því tilskildu að hópnum verði skipt í fernt.

Óvinsæl 30 mínútna regla verður afnumin, en samkvæmt henni varð fólk að panta borð með hálftíma fyrirvara á veitingastöðum eða kaffihúsum. Þeir sem hafa tekið sal eða bar á leigu fyrir einkasamkvæmi mega skemmta sér eins lengi og þeir vilja. Áður varð teitinu að ljúka klukkan ellefu. Allt að tvö þúsund manns mega mæta á útihátíðir í tíu aðskildum hópum. Á þessari reglu verður slakað enn frekar síðsumars. 

Magnus Heunicke heilbrigðisráðherra sagði þegar hann kynnti tilslakanirnar að töluvert hefði dregið úr smitum í Danmörku að undanförnu og fáir lægju inni á sjúkrahúsum með COVID-19. Því hefði verið talið óhætt að létta nokkuð á þeim takmörkunum sem landsmenn hefðu búið við að undanförnu.

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV